Bólfarir ekki sléttar

Speki fræga fólksins birtist okkur enn í vefmiðlunum.  Nú er það Jennifer Aniston sem er búin að ná sér í nýjan gæja eftir að Brad kallinn Pitt lét hana róa og lætur hafa eftir sér að sá nýji sé betri en sá gamli.  En ekki hvað? 

Jennifer sæl er með sitt
og í sífellu gerir hún hitt:
Fann loksins mann
sem listirnar kann
í bólinu betur en Pitt.

Hálft í hvoru

Í dag sagði mbl.is frá óvenjulegu brúðkaupi vestur á fjörðum.  Fyrirsögnin var:  "Hálfheiðið og hálfkristið brúðkaup" og að þessari mögnuðu athöfn komu samkvæmt fréttinni eitt stykki prestur og tveir goðar (annar reyndar fyrrverandi). 

Stundum er lagt að fólki að feta mjóa veginn sem ku vera sá eini rétti og tryggja sælu að loknu jarðlífinu.  Það er greinilega hin mesta firra og betra að keyra breiðgötuna og skipta um akrein eftir þörfum.

Mér hugur við bullinu bara hrýs
en breiðgötu lið þetta fara kýs
og bókaði fyrst
í Valhöllu vist
og til vara svítu í Paradís.

Hefði samt ekki verið vissara að hafa Allah með í ráðum, svona til að vera alveg viss um að fá helgardvöl í himaríki múslima.


Súludans

Nú á að banna einkadans á skemmtistöðum frá og með fyrsta júlí.  Í fréttinni stóð einkadans en ég geri ráð fyrir því að þar sé átt við það sem almenningur kallar súludans?  Þó á að vera hægt að fá undanþágur, eða eins og segir í frétt mbl.


"Í undantekningartilvikum er nektardans í atvinnuskyni leyfilegur á veitingastað að fengnum jákvæðum umsögnum sveitarstjórnar, heilbrigðisnefndar, slökkviliðs, byggingarfulltrúa og lögreglu."

Hér þótti mér sérlega fróðlegt að sjá að slökkviliðið fær að vera með í ákvarðanatöku.  Það er auðvitað vegna þess að það gæti hitnað svo í kolunum að allt fari í bál og brand.

Slökkviliðsmennina munar
miklu að ráða hvar bunar
vatnið á eldinn
en einnig á kveldin
hvar dansinn hjá súlunum dunar.

Nú er bara að vona að slökkviliðið bregðist ekki íþróttafélögunum þegar karlakvöldin fara að nálgast á haustmánuðuðum.


Matarvenjur

Það er misskipt mannanna láni.  Austur á fjörðum veiktust fimmtán starfsmenn Alcoa af matareitrun í gær ef marka má frétt á Mbl.is.  Hversvegna þeir voru ekki fleiri skil ég ekki en hugsanlega hefur maturinn verið svo eitraður að aðeins fimmtán gátu þrælað honum í sig?

Þeir fimmtán sem átu sig fulla
fengu, ég er ekki´ að bulla,
kvalir og verki
kveisunnar merki
sem kallast í minni sveit drulla.

París Hilton var líka í fréttum - auðvitað.  Enn eru það matarvenjur stúlkunnar sem vekja athygli og það er öruggt að hún fær ekki matareitrun meðan hún heldur sig við þetta fæði.

Sem forðum hún fjölmiðla platar
og í fréttirnar þess vegna ratar:
Nú ekki vill
hún viðskotaill
oní sig millgram matar.


Sérsveitaræfing

Það var frétt um það á Mbl í dag að Íslendingar og Norðmenn hefðu eytt einhverjum dögum í Hvalfirði í liðinni viku við að æfa lögregluaðgerðir. Að æfingunni komu embætti ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslan að ógleymdum hinum norsku frændum vorum. 

Af myndinni að dæma, sem fylgdir fréttinni, voru menn að æfa sig í átökum við hryðjuverkamenn eða eitthvað þaðan af verra.  Sem betur fer er ekki mikið um slíka hér á landi en allur er varinn góður og ekki er verra að treysta á Nojarana en Kanann.

Örsjaldan fremja hér morð menn
og mannrán er hér bara orð, en
löggur sig þjálfa
að berjast við bjálfa
og í bardaga treysta á Norðmenn.

Vonandi verður seint eða ekki not fyrir það sem okkar menn lærðu í Hvalfirði um helgina.


Orðuveitingar

Á sautjándann er venjan að forseti lýðveldisins veiti verðugum Íslendingum Fálkaorðuna.  Svo var einnig í dag og listinn yfir þiggjendur var birtur á mbl.is nú síðdegis.  Ekki get ég sagt að ég hafi skoðun á málinu enda flestöll nöfnin fyrir mér einmitt það eitt; nöfn á lista.

Þarna voru þó iðnrekandi, hótelstjóri og hljómlistarmaður ásamt skólameistara, hönnuði og jarðfræðingi.  Allt vafalaust mætasta fólk eins sem virðist hafa sinnt vinnu sinni sérdeilis vel að mati orðunefndar.

Á verðuga krossum þeir klína,
þó kynni ég sannfæring mína:
Þeir gera‘ ekki neitt
nema það eitt
að vinna vinnuna sína.

Og því eins gott að halda áfram að vinna og reyna að vinna vel - þó reyndar sé harla ólíklegt að það endi með skrauti í boði Bessastaðabónda. 

En þarna voru nú reyndar líka orðuhafar sem hafa sinnt hafa félagsstörfum og velferðarmálum og voru krossaðir sem slíkir.


Nýr meðhjálpari

Aldrei man ég áður eftir að hafa lesið um það í blöðunum þó að skipt sé um meðhjálpara í sóknarkirkjum landsins.  Þar er varla að prestaskipta sé getið, enda prestsstarfið orðið kvennastarf og láglaunastarf og þar með óáhugavert.

Nú ber svo við að nýr meðhjálpari hefur tekið til starfa á Selfossi.  Þar fer enginn minni en pólitíkusinn og bisnessmaðurinn Eyþór Arnalds.  Hann er að vonum ánægður með starfið í viðtali við Moggann í dag.  Hann fór nú sem kunnugt er í einhversskonar meðferð eftir ljósastaursmálið í liðinni kosningabaráttu - vonandi að messuvínið verði ekki til að fella hann.

Þó um kirkjunnar hollustu keppi
og kirkjulegt tignarstarf hreppi
þá ætla ég  ráð
ef í það er spáð
að hann altarisgöngunni sleppi.


Dúkkur og dúkkulísur

Nú er búið að halda opnunarhátíð á Reyðarfirði og álverið er komið í gang.  Reyndar er Landsvirkjun í stökustu vandræðum með að standa við gerða samninga um orkusölu því þrátt fyrir hamagang þeirra Impregilo manna hinna ítölsku þá eru framkvæmdir á eftir áætlun....

En semsagt álverið er komið og samt halda mótmæli andstæðinga áfram.  Nú í dag voru fréttir af því að nokkrum brúðum hefði verið komið fyrir í nágrenni álversins og þær væru með kröfuspjöld og borða sem sýndu andstöðu við framkvæmdirnar.

Fyrir austan er eyjan Skrúður
og alþýða laus við múður
virkjun og ver
vargfugl og sker
og baráttufúsar brúður.

Það er hinsvegar alveg ljóst hvernig hægt er að bregðast við þessari tegund mótmælenda.  Einhversstaðar í dómsmálaráðuneyti hljóta þær að finnast pappalöggurnar góðu, sem raðað var meðfram Keflavíkurveginum hér um árið til að koma í veg fyrir hraðakstur.  Nú er bara að senda þær austur og siga þeim á brúðurnar hugrökku.

 

Í þeim er talsverður töggur
en trúlega sínar föggur
þær kjósa að taka
og hverfa  til baka
ef plaga þær pappalöggur.

 


Gömul saga og ný

Jæja, þá er búið að skipa fólk í bankaráð Seðlabankans.  Eins og við var að búast er ekki mikið pláss þar fyrir konur.  Samfylkingin fann enga hæfa í sínum röðum og VG hafa greinilega engan færari en herra Arnalds til að sitja þar með jafnaldra sínum og félaga herra Blöndal.  Framsókn teflir svo fram litlum manni með stórt nafn.  Það var bara Sjálfstæðisflokkur sem splæsti einu af sínum þremur sætum á konu og því eru hlutföllin 1:6 eða 14,3% konur í ráðinu næstu misserin.

Þó annað menn væru að vona
verða mun ástandið svona
í lengd og í bráð,

en bankans í ráð

bara var skipuð ein kona.


Nú verður maður bara að vona að þessi eina kona, Erna Gísladóttir, standi sig og sé verðugur fulltrúi allra kvenna hvar í flokki sem þær standa.  Lítið gerir til þó henni takist aldrei að naga blýanta á við karlmann ef hún bara gætir þess að standa á sínu.

Það er kunnug af körlunum saga
þeir af kostgæfni blýanta naga.
Gættu þess Erna
ekki endir sem þerna
sem í karlana kaffið munt laga.




Sunnlenskt sumar

Því er ekki að neita að sumarið er komið í bæinn.  Og eins og gerist þegar sumarið mætir til Reykjavíkur reynum við að láta eins og hitinn sé að drepa okkur og að við höfumst ekki við innandyra þrátt fyrir norðankulið.

Ég sem er að norðan og veit hvernig sumarið getur orðið á Íslandi fyllist alltaf bjartsýni á slíkum dögum og tek fullan þátt í sunnlenska sumrinu.  Þannig gekk ég á Esjuna í dag og tók síðan þátt í grillboði sem að sjálfsögðu var orðið inniboð um það leyti sem kjötið var orðið steikt í gegn.

En þetta var frábær dagur og ég óska þess að við fáum sem flesta slíka á næstu vikum.

Sumarið sást loks í bænum
og menn settu í einum grænum
grillið í gang
með gjóluna' í fang
- það var napurt í norðanblænum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband