Kayak og klósettferðir

Um helgina týndust tveir kayakræðarar hér við land.  Þetta voru þýsk kona og bandarískur maður sem hingað komu til að róa umhverfis landið.  Þau voru í sambandi við íslenska ræðara og þeim samdist svo um að þau létu vita af sér reglulega.  Eitthvað fór úrskeiðis og þegar þau sendu tölvupóst gegnum gerfihnattasíma til að láta vita af breytingum á ferðaplani þá komst sá póstur ekki til skila.

Þetta hefur svo verið umræðuefni fjölmiðla og almennings í dag.  Margir fordæma "þessa útlendinga" og þusa um kostnað en menn gleyma því að hér hefur verið unnið mikið afrek.  Þessi leið hefur ekki verið róin í einum rykk á kayak áður (svo vitað sé) og það að komast frá Garðskagavita að Rauðasandi á tveimur sólarhringum er ekkert minna en þrekvirki.

Viðbrögðin þykja mér heldur hörð
er heiðurs- við ættum að standa –vörð:
Því fyrr má nú vera,
Flóann að þvera
og róa svo beint yfir Breiðafjörð.

Frábært afrek og vonandi að framhald ferðarinnar gangi að óskum hjá þessum fullhugum.

Í frétt á Mbl í dag sagði frá ljóskunni frægu París Hilton eina ferðina enn.  Eins og menn vita situr stúlkukindin inni og nú hefur hún fengið þá flugu í sinn tóma haus að klósettferðir geti reynst hættulegar; einhver gæti fundið upp á því að mynda á henni botninn.  Ekki mikið þó lesendur Mbl. vilji ekki missa af svona heimsfrétt enda var þessi frétt ein af þeim mest lesnu í dag.

Af þessu má enginn missa
og margur er trúlega hissa:
Ef leysir hún vind
hún lendir á mynd
og því hættir nú París að pissa.


Af græningja í Kanada

Alltaf stendur Mogginn sig í furðufréttunum.  Þegar maður er alveg að gefast upp á París Hilton og Kalla Bjarna veður maður glaður af að heyra um manninn með græna blóðið í Kanada.  Hann var á skurðarborðinu þegar grænleitt blóðið fór að streyma og mun læknum hafa brugðið í brún og kalla þeir þó ekki allt ömmu sína.  Ég tel hinsvegar einsýnt að þetta hafi verið genetískur framsóknarmaður, sennilega af slóðum Vestur-Íslendinga.

S
lík hefur ei þekkst liðin hundrað ár
og hræddust það læknar og töldu fár
er grænlitað blóð
bunaði´ um slóð
úr Framsóknarmanni með fótasár.

Þessi maður mun sem betur fer hafa náð sér að fullu - að minnsta kosti af fótameininu.


Launamisrétti

Þó ég hafi skrifað um launabil og bankastjóra í bloggi gærdagsins var eitt mér algjörlega hulið: Að hækkuð laun til handa bankastjórum Seðlabankans myndu verða til að Davíð Oddson kæmist á toppinn í launum opinberra starfsmanna.  Og þá meina ég toppinn því hann er kominn upp fyrir forseta lýðveldisins í mánaðarlaunum.  Ekki slæmt fyrir að naga blýanta.

Þó ekki sé ætlun að kvabba
ég um vil í bróðerni rabba;
þá fásinnu' að Óli
á forsetastóli
fái ekki laun á við Dabba.

Við heimtum strax nokkra launaflokka fyrir forsetann.


Ósigrar

Í liðnum kosningum tapaðir Jónína Bjartmars stórt og datt út af þingi.  Ég held hún sé ekki einu sinni varamaður.  Fréttablaðið greinir svo í dag frá því að hún ætli að koma sér í burtu frá þessu öllu og flytja til Kína.  Kannski að hún ætli að kynna sér flokkshollustu og hvernig þarlendir viðhalda henni?

A
llt er sko í þessu fína
og ekki deyr ráðalaus Nína:
Fylgið það bregst
og í flæking hún leggst
og ferðinni er heitið til Kína.

Landsliðið tapaði líka stórt í dag þegar Svíar burstuðu Íslendinga 5:0.  Ég vissi nú ekki að þjálfarinn hét Eyjólfur fyrr en ég heyrði menn draga færni hans í efa í útvarpi í gær og síðan var þetta rætt áfram í dag.  Sjálf er ég skoðanalaus og veit ekkert um þjálfun.

Ég vona að fólki' ekki finnist
frekja þó á það ég minnist
að fínt væri að Eyvi
færi í leyfi
svo fótboltaleikirnir vinnist.

Enn einn ósigurinn varð svo þegar Seðlabankastjórar  fengu 200 þúsund krónu launahækkun (á mánuði) nánast á einu bretti án þess að hafa mikið fyrir því.  Ekki varð ég að minnsta kosti vör við að þeir færu í verkfall?  Þessi ósigur sýnir alþýðu manna að meðal þeirra sem ráða er einbeittur vilji til þess að viðhalda launabili og auka það frekar en minnka.

Þeir fá heilmikla hækkun á laun
enda hetjur sem eflast við raun.
En lýðum þó er
ljóst; mér og þér,
það leggur af málinu daun.

 


Stórsigur á smáþjóðum

Þegar ekkert er að lesa í blöðunum þá kemur fyrir að jafnvel áhugalaus kona eins og ég les íþróttafréttir.  Þær voru áberandi á mbl.is í dag;  gull hér og gull þar.  Og ég sem hélt að við værum nýbúin að missa allt niðrum okkur á alþjóðavettvangi eftir eitthvað jafntefli í fóltbolta hér um daginn?  Við nánari lestur kom á daginn að það eru smáþjóðaleikar í gangi einhversstaðar suðrí Evrópu - gott mál.

Um íþóttir tel ég mig fáfróða
og flest annað lesefni má bjóða
mér, en þó veit
að við erum heit
og vinnum á stórleikum smáþjóða.


Af veðri og vindum

Veðrið undanfarna daga er ekkert til að hrópa húrra fyrir ef maður er á suðvesturhorni þessa guðsvolaða skers.  Rigning með köflum og stanslaust rok.  Veðurspáin býður heldur ekki upp á mikla huggun, helst að það fari hlýnandi með haustinu.

Eins og þetta sé nú ekki nóg þá er Hafró að angra okkur með því að þorskurinn sé að klárast í sjónum og krónan féll í beinu framhaldi af þeim tíðindum.  Loks var Valgerður að agnúast í sjónvarpinu út af skorti á Vaðlaheiðargöngum.  (Var annars ekki búið að tala um að hún yrði gerð að sendiherra á Svalbarða?) 

Eini ljósi punkturinn í fréttum helgarinnar var viðtal sjónvarpsins við Geira Goldfinger um vændi í Kópavogi; hann sagðist borga sínum dansmeyjum svo vel að þær þyrftu ekki að drýgja tekjurnar með slíkum aukastörfum.

Í veðrinu vondur er hvellur
og vesalings krónan hún fellur.
En viðtal við Geira
var gaman að heyra:
Á Goldfinger eru‘ ekki mellur.

 


Lögbann

Það er vitað mál að það er ekkert sérlega gaman að vera frægur.   Hugsum bara um Egil ræfilinn Helgason sem nú á að setja í bann fyrir það eitt að ætla flytja sig og sinn þátt milli sjónvarpsstöðva.  RUV-ohf og 365 miðlar berjast nú um kappann og hafa stór orð gengið á milli deiluaðila í dag.

M
enn í skætingi skiptast á orðum
þó skylmast þeir vildu með korðum.
Samt er þó verst
ef söfnuður berst
um silfrið hans Egils sem forðum.

En Egill lætur ekki eiga hjá sér og hann er örugglega með mótleik við illgirni þeirra hjá 365 miðlum:

Baráttan strákinn mun styrkja
hann stoltur mun gáfurnar virkja:
Ef lýstur í bann
ljóst er að hann
Egill mun Höfuðlausn yrkja.


Á sandi byggði heimskur maður hús...

Alveg er það furðulegt hvað stjórnmálamönnum getur dottið í hug.  Nú vill meirihlutinn í Reykjavík, það er að segja Villi og hestasveinn hans Bjössi, fara að byggja í Örfirisey.  Gleymd eru í bili áform um íbúabyggð í Vatnsmýri og loforð um að flytja flugvöllinn á Löngusker, sem mig minnir að hafi verið aðalbaráttumál Framsóknar fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar.

Til að þessi nýja hugdetta gangi í lýðinn var fenginn spekingur frá Hollandi.  Í útvarpinu var ekki á honum að heyra að hækkun sjávaryfirborðs væri vandamál sem þyrfti að óttast, enda maðurinn alinn upp fyrir neðan sjávarmál. 

Að ýmsu er ástæða’ að hyggja
ef í Örfirisey á að byggja:
Skrítin kom skrollandi
skrúfa frá Hollandi
og flatir nú landsmenn liggja.

Við Íslendingar brettum því bara upp ermarnar og förum að byggja á landfyllingum þó að við eigum nægt landrými annarsstaðar - auðvitað.

Framtíðar- verður það -vandi
að verja byggð uppá landi
ef hækka mun haf
fer Holland á kaf
og því sjálfsagt að byggja á sandi.

Í dag er annars stór dagur fyrir okkur sem höfum beðið þess að reykingabann taki gildi á matstölu- og skemmtistöðum.  Áréttað var í útvarpinu í morgun að þessi lög væru vinnuverndarlög og ætlað að vernda starfsfólk en aukaáhrif væru að þeim 77% þjóðarinnar sem ekki reykir myndi líða betur.  Eiginlega er hálf lúðalegt að sitja heima við tölvuna í stað þess að sitja á krá og anda að sér súrefni sem heitir ildi á fornri nútímaíslensku.

Á skemmtistað vera ég vildi
og vita að nægjanlegt ildi
er fyrir alla
konur og kalla
því loks gengu lögin í gildi.



 

Stefnuræða í sjónvarpi

Merkilegt sjónvarpsefni en gaman væri að vita áhorfið?   Ég horfði reyndar nokkurnvegin á fyrstu umferð, hlustaði aðeins á framhaldið en gafst svo upp.  Ég tók einna helst eftir fýlupokunum en Guðni bar þar höfuð og herðar yfir aðra.  Hann hældi fyrrverandi stjórn í öðru orðinu en fann henni allt til foráttu í því næsta.

Hann var bitur og svekktur og sár
og þ
að sáust á hvörmunum tár.
Er íhaldi hældi
hallmælti, vældi
og harmaði umliðin ár.

Steingrímur var líka frekar beiskur.  Hann sór af sér meðlagsskyldu með afkvæmi þeirra Ingibjargar og Geirs eins og einhverjum hefði í alvöru komið til hugar að kenna honum krógann.

Geðvondur Grímur var kallinn
en gljáfægður á honum skallinn:
Þrátt fyrir frúna
sem fór nú í brúna
stjórnlausan dæmir hann dallinn.

Hann hefur ekki mikla trú á stjórnarsamstarfinu en lofar öflugri stjórnarandstöðu.  Vonandi að hann verði skemmtilegri þegar frá líður.


Sumarkoma?

Þá er útlit fyrir að sumarið sé komið til Íslands.  Það var vissulega komið í Berlín þar sem helginni var eytt við að skoða og reyna að kynnast þessari sögufrægu borg. 

Hér heima virðist fátt hafa gerst.  Einna helst er verið að tala um aðstoðarmenn ráðherra þessa daganna en við hraðlestur blaðanna gat ég ekki séð að nema tveir væru búnir að taka af skarið.  Ingibjörg Sólrún valdi sér Kristrúnu Heimisdóttur og síðan var Össur búinn að krækja í  Einar Karl Haraldsson. 

Einar hefur nú aðallega vakið athygli upp á síðkastið fyrir bókstafstrú.  Hann hefur eytt mikilli prentsvertu í að fjalla um að hjónaband geti aldrei verið sáttmáli milli einstaklinga af sama kyni ef ég hef skilið hann rétt.  Þar fyrir utan er hann hinsvegar sagður hafa ýmislegt sér til ágætis:

Hann ynni’ ekki skepnunni Skjóna grand,
hann skaffaði óhræddur róna bland:
Hann óttast ei neitt
nema það eitt
að hommarnir gangi í hjónaband.

Eins gott að hann fór ekki í félagsmálin.

Annars er þingsetning á morgun og þá verður nú fagnaðarfundur.  Einhverjir eru að sjálfsögðu búnir að hittast og kjaftasaga um félagana Möller og Johnsen fjallar um þeirra fund eftir að ljóst varð að sá fyrrnefndi yrði ráðherra

Til Eyja er leiðin ei löng
en líkast til sagan þó röng:
Án þess að blána
sagði Árni við Stjána:
“Ekki gleyma; þú skuldar mér göng”


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.7.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband