23.5.2007 | 23:27
Sáttmálinn
Furðulegt að stjórnarflokkarnir skulu gera með sér sáttmála. Afhverju ekki bara samning eða samkomulag? Sáttmáli eri eitthvað svo heilagt og biblíulegt sem er ekki alveg viðeigandi þegar mann grunar þeir sem sáttmálann gera séu með lygaramerki á tánum eins og börnin segja (eða sögðu að minnsta kosti upp úr miðri síðustu öld).
En nú er sáttmálinn semsagt orðinn að veruleika og Geir hefur öðlast nýja ímynd; honum tókst að ná í sætustu stelpuna. Til hamingju Geir:
Í bústaðinn austur þú ókst
og allnokkuð hróður þinn jókst:
Ánægja þín
úr augunum skín
því Imbu þér geirnegla tókst.
Mér finnst reyndar helst vanta í þetta samkomulag að við sem friðelsk þjóð fáum nafn okkar strikað út af lista hinna viljugu þjóða. Það hjálpar vissulega að í sáttmálanum er stríðsreksturinn í Írak harmaður en betra hefði samt verið að reyna að rétta okkar hlut og fá okkur strikuð út af lista.
Við sáttmálann setur menn hljóða
því sá hefur fjölmargt að bjóða.
Samt fyllum við enn
friðelskir menn
flokk hinna viljugu þjóða.
Þegar ég horfði á sjónvarpið tala við verðandi ráðherra komst ég í gott skap við að sjá nýja félagsmálaráðherrann okkar, hana Jóhönnu Sigurðardóttur. Hún var svo glöð að það var ekki hægt annað en að samgleðjast henni og það virðist vera skoðun flestra sem ég hef rætt við í dag.
Aðgát hún oftast sér temur
en illa nú gleðina hemur.
Allnokkur styr
stóð um það fyrr:
er hún staðhæfði Minn tími kemur.
Og nú er hann kominn og hún á örugglega eftir að nota hann vel.
Bloggar | Breytt 24.5.2007 kl. 08:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.5.2007 | 23:06
Vorhret
Það tókst á örfáum dögum að mynda ríkisstjór Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks. Ekki nein óskastjórn okkar miðju-jónanna en við látum okkur hafa það. Ég kýs að líta á þetta sem einskonar vorhret (sem reyndar gæti tekið fjögur ár) áður en sumar kemur með sameinuðum kröftum alls félagshyggjufólks í landinu.
Hitt vorhretið sem nú gengur yfir á víst að standa fram yfir hvítasunnu samkvæmt síðust veðurspám og þá er kannski eins gott að vera búinn að bóka smá meginlandsferð þá dagana.
Þjóðin er langþreytt og loppin
og leiðist að vera ekki sloppin
við kulda og snjó
en kætast má þó
því stjórnin er komin á koppinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2007 | 23:27
Góðar fréttir - fyrir þotur.
Lyfið dugir ef drengur vill pota
í dömuna heita og vota,
en líka það vekur
til lífsins ef tekur
það örþreytt og eldgömul þota.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.5.2007 | 22:56
Ekki fréttir
Westur í Ameríku stendur hinsvegar Bush í ströngu og leitar að eftirmanni Wolfowitz í Alþjóðabankastjórastöðuna . Skyldi Bush gera sér grein fyrir því að fyrrverandi bankastjóri íslenska seðlabankans er á lausu? Við erum nú einu sinni stórvinir og á lista viljugra þjóða ef út í það er farið.
Það flaug í minn heimska haus
nú hugsun, að staða er laus
hjá Bush fyrir Jón
sem bætt getur tjón
og við losnum við röfl hans og raus.
Annars greindu fréttir í kvöld frá því að bæði BB og Árni Johnsen hefðu verið færðir niður um eitt sæti á framboðslistum í kjölfar útstrikana. Þar með má gera ráð fyrir að þeir séu í sama báti og að ráðherrasæti gætu gengið þeim úr greipum fyrir vikið.
Nú fer klárlega gaman að kárna
og karlinum Birni má sárna.
En huggunin megn
er harmi þó gegn:
Hann deilir kjörum með Árna.
Loks er það að frétta að allt mun vera í fínu lagi hjá kærustuparinu Imbu og Geira. Þau hafa eytt helginni saman, því loks þegar stráknum tókst að góma þá sætustu, kaus hann að nota sér það út í æsar; hann fór með hana í bústað.
Ég lengi að dæmunum leita verð
og líkingamálinu beita verð
en ákafur Geir
vill endalaust meir
og fór með þá sætust í sveitaferð.
Vonandi að heilnæmt sveitaloftið hafi góð áhrif á sambandið.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.5.2007 | 00:22
Stjórn eða ekki?
Það er sko sannkölluð sápa
á sjónvarpið núna að glápa.
Stöðugir fundir
framtíðin undir
og guð þetta er geðveik kápa.
Já, kápan var flott sem Ingibjörg var í þegar hún kom í Ráðherrabústaðinn í dag.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2007 | 22:37
Áþreifingar
Dagurinn hefur verið viðburðaríkur á stjórnmálasviðinu. Á þriðja tímanum í dag var rofin útvarpsdagskrá til að útvarpa frá fréttamannafundi formanna ríkisstjórnarflokkanna. Þessi fundur var svo sýndur í sjónvarpi hálftíma síðar.
Þar mátti líta mæddan Jón sitjandi á ská við hliðina á Geir sem að sjálfsögðu sat í öndvegi. Sjónvarpið sýndi nú samt meira Jón en Geir og var öll myndin fyrir vikið hálf skökk. Jón kvartaði mikinn undan "áþreifingum" sem er nýtt orð fyrir mér en virðist þýða að allir séu að tala við alla nema Jón.
Á skjánum var allnokkur skádreifing,
var formaður Jón
enda feikilegt tjón
og framsókn nú sjö manna smáhreyfing.
Hinsvegar var meira fjör þegar Guðni mætti í Kastljósið í kvöld:
Í Kastljósi Guðni var gestur
en í gaspri er hann jafnan bestur.
Til málanna lagði
léttur í bragði:
Þetta er ljóslega trúnaðarbrestur.
Þetta með trúnaðarbrestinn var Jón margspurður um á fyrrnefndum fréttamannafundi en hann sór og sárt við lagði að enginn slíkur hefði verið til staðar. Guðni er því greinilega ekki sammála sínum formanni í þessu máli og segir "Það staðfestir það sem við vissum og fundum, Jón Sigurðsson fann aldrei hönd, það var aldrei gengið frá neinu"
Nú Framsókn á klakanum kalda í
kuldanum hímir og valda því
grunnhyggin flón
fann enga hönd til að halda í.
Nú verða þeir bara að styðja hvor annan Guðni og Jón - að minnsta kosti þangað til fundið verður þægilegt sendiherraembætti handa Jóni, en þess verður vonandi ekki of langt að bíða.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2007 | 23:22
Allt við það sama?
Af stjórnarmyndunarviðræðum er fátt nýtt í dag. Helst skilst manni þó að Geir sé farinn að ráðstafa ráðherraembættum til Framsóknar og að þeir eigi að fá minnst fjóra ráðherra og una svo glaðir við sitt.
Sína maddömu glaður vill gilja
Geir, sem er erfitt að skilja:
Ætla má að
athæfi það
gangi þversum á þegnanna vilja.
Furðulegt finnst mér hvernig hægt er að líta framhjá úrslitum kosninga ef þessi verður niðurstaðan því eiginlega kom bara eitt út úr kjörkössum að þessu sinni: Þjóðin hafnaði Framsókn og tveimur af sitjandi ráðherrum var sparkað út án þess að það virðist breyta nokkru.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2007 | 23:43
Fallin spýta fyrir Jóni!
Það verður gaman að fylgjast með þreifingum stjórnmálamanna næstu dagana. Kosningaúrslitin eru að síast inn í okkur almenning og Framsóknarflokkurinn er að hugsa upp afsakanir til að ganga á bak orða sinna um að ekki kæmi til greina að sitja áfram í ríkisstjórn ef flokkurinn fengi lítinn stuðning í kosningunum. Jón Sigurðsson reynir nú allt hvað hann getur að gleyma þeim orðum og að tryggja sér og sínum mönnum sæti við kjötkatlana áfram.
Ekkert fær ró hans raskað
þó reyndar sé fleyið laskað
og komið í strand
langt upp á land:
Með brotajárn nú skal braskað.
Bloggar | Breytt 14.5.2007 kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.5.2007 | 23:32
Korter í kosningar
Hnípna mig setur og hljóða
því hart er að láta sér bjóða
að liðið í austri
með látum og flaustri
reki heim rauðhausinn góða.
Talandi um að reka heim aðskotadýr þá vil ég benda á að það kom skýrt fram hjá lögreglunni, bæði á höfuðborgarsvæðinu og norðan heiða, að þeir sígaunar sem hér dvöldu í liðinni viku voru alls ekki reknir heim. Þeir fóru af fúsum og frjálsum vilja eins og margoft hefur verið bent á. "Vendipunkturinn var um helgina þegar þetta lá allt sofandi niðrí bæ" sagði aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Fréttablaðið í gær en samt var þetta alls ekki rekið burt; það verður að koma skýrt fram.
"Þetta um borg var á vappi
svo í veseni stóðum og stappi.
Þó burt sendum viðekki sígaunalið"
sagði kjarkmikill lögreglukappi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.5.2007 | 23:31
Hjartans mál
Í sjónvarpinu var í kvöld sýnt viðtal við Bjarna Torfason hjartaskurðlækni sem dundaði sér við það fyrr í dag að græða gervihjarta í mann. Gervihjartað leit út eins og það hefði verið keypt í Húsasmiðjunni en læknirinn fullyrti að það gerði sitt gagn og ekki ætla ég að rengja það.
Læknirinn Bjarni er bartalaus,
bjartsýnn og langt í frá artarlaus.
Hann náði í hníf
og nú á sér líf
náungi einn sem var hjartalaus.
Merkilegt hvað læknavísindin geta - þó reyndar geti þau ekki læknað kvef.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar