8.5.2007 | 22:47
Ný skoðanakönnun
Loksins kom hún. Skoðanakönnunin sem ég get tekið mark á. Við, sem eigum okkur draum um að ríkisstjórnartíð Geirs Haarde muni ljúka á laugardag, fengum loksins skoðanakönnun sem gaf draumum okkar byr undir báða vængi. Reyndar voru nú víst ekki nema 63% aðspurðra sem tóku afstöðu en það eru nú bara fastir liðir eins og venjulega:
Nú skoðanakannanir kynna
að kosningar munu þeir vinna
sem breytingar velja
og vongóðir telja
að íhaldsstjórn loks skuli linna.
Ég er hinsvegar eldri en tvævetur og geri mér grein fyrir að þessi spá verður orðin úrelt þegar ég skreiðist fram úr rúminu upp úr sjö í fyrramálið og þá getur eins hafa orðið sveifla í hina áttina:
Limran þvi kemur í hvelli
og er kastað á netið með skelli.
Fyrr en spámenn á ný
spá munu því
að víst haldi stjórnin velli.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.5.2007 | 23:22
Nýtt frá Jerúsalem
Af þeim stöðum sem ég hef ekki heimsótt eru Biblíuslóðir efstar á óskalistanum. Ástæður þess að þær hafa orði útundan eru fyrst og fremst ótti við ófrið og ókunnugleiki. Ég les hinsvegar með athygli allt sem kemur nýtt af þessum slóðum og nú í kvöld mátti lesa þá frétt að gröf Heródesar sáluga hefði fundist í Jerúsalem.
Á netinu fjölmargar fer og les
fréttirnar; einkum þær sér og spes.
Og mig gladdi að sjáer greint var þar frá
að gröf hefði fundist, merkt Herodes.
Heródes var nú reyndar ekki í mínu liði ... en samt; nú fer ég að drífa mig að skoða þessi svæði.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.5.2007 | 23:41
Hnoss og kross
Drengurinn dýrðlegt bar hnoss
og Dorrit fékk vonandi koss.
Nú lifum í trúnni
að læri af frúnni
hann Óli og kræki´á hann kross.
Þessi ungi söngvari hefur ótrúlega fallega framkomu og rödd og það hafa sannalega verið hengdar Fálkaorður á minni menn.
Talandi um orðuveitingar þá var landslýð brugðið að heyra af veikindum Ólafs Ragnars nú síðdegis. Vonandi nær hann sér fljótt og þjóðin getur verið viss um að ekki er það sukksamt líferni sem veldur því eins og allir vita er forsetinn mikill reglumaður. Það er helst rímsins vegna sem maður leyfir sér að gefa annað í skyn....
Fyrrum hjá forseta prúðum
allt er farið að vaða á súðum:
Þetta er ekki spaug
á spítala flaug
eftir helgi í bílífi á Búðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.5.2007 | 22:27
Samgöngumál og einkaframtak
Það er alltaf merkilegt þegar einkaframtakið og forsjárhyggjan mætast. Þannig er hlálegt að sjá hvernig frábært framtak Norðanmanna í samgöngumálum virðist ætla að koðna niður vegna þess að pilsfaldur ríkisins er ekki nógu síður.
Þarna á ég við Vaðlaheiðargöngin sem einkaaðilar fyrir norðan stofnuðu hlutafélag til að bora. Félagið hét eða heitir "Greið leið" en ætti kannski að heita "Greið leið að ríkiskassanum."? Ef ég hef skilið málið rétt þá fannst þeim eitthvað skorta á ríksiframlag eða einhversskonar ríkisábyrgð og sögðust þeir hættir við allan undirbúning. Reyndar var það nú eitthvað dregið tilbaka en það breytir því ekki að fyrir okkur sem vorum farin að sjá göngin í hillingum og vorum alveg til í að borga fyrir að sleppa við Víkurskarðið voru þetta hálfgerðar furðufréttir.
Þetta er furðuleg fregn,
framkvæmdir eru um megn:
Göng ekki þora
að byrja að bora
og gatið mun seint ná í gegn.
Og svona af því samgöngumál fyrir norðan eru til umtals þá veit ég ekki hvaða rugl er í gangi með Grímseyinga en þeir eiga samúð mína eftir að fréttir í dag sögðu að ferjan þeirra væri í lamasessi. Þessi frétt kemur í kjölfar frétta seinustu daga um ryðkláfinn sem verið er að gera upp til að þjóna þeim í framtíðinni en gengur víst hægt og kostar mikið.
Útí eynni þó íbúar hangi
ég ætla að stundum þá langi
í bæinn að skreppa:
Hvílikt bull var að sleppa
hinum góða og gamla Drangi.
En eins og allra elstu menn muna þá sá Drangur um siglingar milli lands og eyjar langt fram á horfinni öld.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.5.2007 | 23:17
Allt er gott sem endar vel
Nei þar á ég ekki við Baugsmálið enda er því ekki nándar nærri lokið. Alþýða manna sem fylgist í forundran með þessu bíður bara róleg eftir framhaldinu eins og í öðrum þáttum ríkissjónvarpsins ohf.
Nei ég er að hugsa um fréttina af drengnum í Kópavogi sem var að reyna að gera tvennt í einu; reykja og keyra bíl. Sennilega byrjandi á báðum sviðum og réð ekki við hvorutveggja: Hann missti fyrst logandi sígarettuna og við að reyna að ná henni, missti hann stjórn á bílnum sem hafnaði á grindverki. En drengurinn slapp með skrekkinn og er vonandi hættur að reykja:
Nær lán sitt og líf hafði rofið
sá er logandi rettu í klofið
missti, en fékk
aðeins skrámur og skrekk
og hjá skvísunum getur því sofið.
Meðal annarra frétta sem Mbl. birtir í kvöld er andlátsfrétt súdanskrar geitar. Sú komst í fréttir í fyrra þegar eigandi hennar (sem hafði af henni annað gagn en geitaost) var neyddur til að "kvænast" henni. Nú er semsagt geitin öll en hún kafnaði þegar hún gleypti plastpoka ef Mogginn fer rétt með og ekkillinn getur farið að líta í kringum sig eftir nýju kvonfangi.
Langt uppi í Súdanskri sveit
seggur er laus við sín heit:
Þar kafnaði í kasti
er kyngdi hún plasti
hans "kona" sem reyndar var geit!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2007 | 23:23
Annar maí
Þannig sögðu blöðin í dag frá ræðu sem Skúli Thoroddsen hélt á Húsavík. Hann spáði því þar, ef ég hef skilið rétt, að stjórnarflokkarnir væru langt komnir með áform sín um að gera Landsvirkjun að hlutafélagi og að nýleg skipan Páls Magnússonar í stöður stjórnarformanns væri liður í þeim undirbúningi. Með því að hafa góðan framsóknarmann þar yrði framsóknarmönnum auðveldara að sætta sig við að sjálfstæðismaður fengi forstjórastólinn sem samkvæmt Skúla var frátekinn fyrir Kjartan Gunnarsson.
Ég er alltaf mjög veik fyrir samsæriskenningum og þessi finnst mér frábær. Ekki síst eftir að bæði Geir og Jón hafa neitað í dag að nokkuð slíkt sé í bígerð - þá sannfærðist ég.
Þessi ríkisstjórn sífellt mun ræða
um ráðin til þess að græða:
Landsvirkjun enn
langar þá menn,
og sér ætla, að einkavæða.
Mesta furða að þeir skuli ekki hespa þessu af fyrir kosningar en hættan er nú svo sem ekki mikil á að þeim gefist ekki tími til að vinna að þessu eftir að talið hefur verið upp úr kössunum.
Sjónvarpið hélt áfram að fjalla um ríkisborgararétt tengdadóttur umhverfisráðherra. Málið lítur ekki vel út eftir að í ljós hefur komið að ferlið allt tók fjórtán daga. Fjórtán daga frá því að hún sótti um þar til hún stóð með pálmann (passann) í höndunum. Bjarni Benediktsson neitaði reyndar alfarið í Kastljósi að nokkuð væri athugavert við slíkt en efasemdarkona eins og ég getur nú ekki annað en tekið því með fyrirvara.
Þeir fóru að landsins lögum
og líkt og í góðum sögum:
Fyrirheit efnd
í allsherjarnefnd
á einungis fjórtán dögum.
...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.5.2007 | 23:22
Bankamál á góðum degi
Góður dagur 1. maí til að minnast Alþýðubankans sáluga. Mér finnst ekki svo langt síðan ég fór niður á Laugaveg og stofnaði launareikning í þeim banka en það eru nú samt ríflega 25 ár síðan. Ekki man ég hver var bankastjóri og hugsa að ég hafi bara alls ekki vitað það.
Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar og bankinn orðið Íslandsbanki og síðar Glitnir. Ferðum almennings í bankann hefur fækkað stórlega því nær öll viðskipti fara í gegnum heimabanka en þjónustugjöldin hækka samt stöðugt.
Og nú á að skipta um bankastjóra. Undrabarninu Bjarna Ármannssyni skal skipt út fyrir mun yngri mann. Bót í máli þó að hann fær litlar 900 milljónir í starfslokagreiðslur þannig að hann þarf ekki að fara á bætur alveg strax.
Góður dagur 1. maí til að segja frá því að banki sem áður var kenndur við alþýðuna skuli þess megnugur að borga nær 250 árslaun verkamanns fyrir að losna við einn starfsmann.
Úr býtum mun smávegis bera
hann Bjarni, sem fær ekki að vera
með úlpu á hanka
í Alþýðubanka.
Hvað ætli hann fái að gera?
Vonandi að hann verði ekki atvinnulaus lengi....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.4.2007 | 23:21
Hitabylgja
Hvað er að gerast? Dagatalið sýnir apríl en hitamælar landsins rjúka upp úr öllu valdi. Reyndar á það við um hitamæla víðar því óvenju miklir hitar og þurrkar eru víðast hvar í Evrópu þessa dagana. Auðvitað er rík ástæða til að hafa áhyggjur af hlýnun andrúmsloftsins og bráðnun jöklanna en þegar ég spókaði mig í ermalausum kjól norður á Akureyri í gær og dag var mér í smástund alveg sama.
Met sýna mælar og kvarðar
og miklu ég skil þetta varðar:
En í bili finnst mér
fínt ef svo fer
að hækki hitastig jarðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
28.4.2007 | 20:02
Ríkisborgararéttur
Ég veit ekkert um hvaða ástæður stúlkan hafði og ég hef alls enga ástæðu til að rengja Jónínu Bjartmars þegar hún segir að hún hafi engin afskipti haft af málinu. Mín von er hinsvegar sú að þetta atvik verði til að fleiri umsækjendur fái réttláta og skjóta úrlausn sinna mála.
Ég er til dæmis að hugsa um stúlkuna sem ég hitti um daginn. Þetta er flott ung kona frá Suður Ameríku sem er hér að reyna að komast í háskólanám. Hún hefur ekki fengið ríkisborgararétt og það sem verra er; hún þarf að fara á fárra mánaða fresti úr landi til að fá endurnýjað dvalarleyfi sitt sem námsmaður. Slíkt kostar auðvitað fúlgur og tekur tíma frá náminu og vinnunni sem hún stundar til að hafa í sig og á. Vonandi renna nú upp betri tímar fyrir hana og aðra í líkri stöðu.
En til að halda áfram með tengdadótturina þá ber vel í veiði fyrir framsókn að leyfið sé veitt núna. Eða ætli það séu ekki góðar líkur á að kjósendum B-lista fjölgi um einn í komandi kosningum?
Er Framsókn var forðum að smala
fylgið var mest inn til dala.
En atkvæðin fá
nú útlöndum frá
og allra helst Guatemala.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.4.2007 | 23:45
Prestastefna
Furðulegt hefur verið að fylgjast með samkomu presta sem farið hefur fram á Húsavík síðustu daga. Þar mætast prestar allstaðar að og viðra kjóla og kraga í sólskininu þarna norðurfrá. Aðalmálið sem fyrir fundi þeirra lá var tillaga um að prestar fengju leyfi að gefa saman samkynhneigða í heilagt hjónaband.
Ég fylgdist nú ekki stíft með fréttaflutningi af fundinum en heyrði þó prest segja frá því fyrir fundinn að tillöguna styddu og hefðu undirritað yfir fjörutíu prestar. Síðan var hún borin upp og þá brá svo við að aðeins um 20 þeirra stóðu með eigin tillögu? Hvað er á seyði?
Mér finnst nú reyndar mikil bjartsýni að halda að þjóðkirkjan fari að breyta einhverju í frjálsræðisátt. Leikmanni sýnist þetta flokkur af öldruðum afturhaldsgaurum í svörtum stökkum og barnalegt að halda að þeir hugsi um annað en fermingarbarnabónusinn og fyrirstandandi giftingavertíð. Einhverjum hafa þó vænti ég sárnað niðurstöður - a.m.k. þeim 20 sem stóðu við orð sín og studdu tillöguna.
Gagnkynhneigð kirkjan er geld
og gamlingjum ofurseld.
Prestarnir margir
munu þó argir:
Frjálslynd var tillagan felld.
Argur í fornu máli þýddi nú reyndar það sem heitir nú samkynhneigður!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.7.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar