Landráð?

Í fréttum útvarps í gær var sagt frá nýju samkomulagi (sem í fréttinni var ýmist kallað samningur eða viljayfirlýsing) sem utanríkisráðherra ætlaði að undirrita fyrir okkar hönd (og hefur vafalaust gert) í dag.  Í því var gert ráð fyrir að Norðmenn sæu um varnir landsins nema á sjó - þar áttu Danir að koma að málum.

Mér finnst þetta ekki galin hugmynd.  Fáum er hlýrra til Norðmanna en mér sem bjó með þeim árum saman og Danir hafa líka átt sér tryggan bandamann í mér eins lengi og ég man.  Það sem mér finnst hinsvegar galið við þetta er framgangsmátinn. Þetta virðist ekki hafa verið rætt utan stjórnarflokkanna og Valgerður sagði eitthvað í þá veru að þetta væri ekki neitt stórmál og því óþarfi að bera það upp á Alþingi.  Norðmenn vilja hinsvegar vita hver eigi að borga brúsann sem eðlilegt er og málið átti að kynna í norska Stórþinginu í dag.  Af hverju þurfa þingmenn þar að ræða málin en ekki hér?

Landráð er auðvitað stórt orð en ég man samt hvað best úr Íslandssögunni frásögnina af Kópavogsfundinum og Árna lögmanni Oddssyni sem skrifað grátandi undir hollustueið við danska kónginn árið 1662.

Valgerður grætur nú varla
og virðist í rauninni harla
kát nú um stund;
boðar Kópavogsfund
og afsal til erlendra jarla.

 


Nýtt að austan

Ég vona að það verði ekki lagt út sem Þórðargleði hjá mér þó að ég geri að umtalsefni hve ástandið virðist slæmt í höfuðstöðvum stóriðjunnar austur á Kárahnjúkum.  Nýjustu fréttir herma að vinnueftirlitið sé búið að loka göngunum vegna ónógrar loftræstingar.  Ekki eru nema nokkrir dagar síðan gangastarfsmenn veiktust af heiftarlegri sýkingu og þá var upplýst að bæði skorti vatn og salernisaðstöðu þarna niðri og að því sé erfitt að halda uppi lágmarks hreinlæti.

Það er krísa við Kárahnjúka
- nú kýs ég að láta allt fjúka:
Þar vosbúð er löngum,
vatnslaust í göngum
og vantar allt pláss til að kúka.


Fólk í fréttum

Ég get ekki annað en tekið undir með Fréttablaðinu (eða var það Blaðið?) sem í dag lýsti áhyggjum sínum af sambandsslitum Kate Middleton og Vilhjálms prins.  Einhversstaðar las ég líka að það þótti sérlega ámælisvert að hann sagði henni upp með smáskilaboðum í farsíma.  Konunglegur kjarkur?

Það var furðuleg fjandans harka,

ef fréttir er eitthvað að marka,
að segja upp Kate,
sem er kvenleg og heit
en Villi samt valdi að sparka.

Annars voru fréttirnar í dag meira og minna um Boris Jeltsín sem lést af hjartaslagi í Rússlandi í morgun.  Nú í kvöld las ég svo frétt af því að rússneskir veiðimenn hefðu (í óleyfi) banað fágætum hlébarða og þótti ekki síður eftirsjá í honum en Jeltsín.

Þeim böðlum sem bönuðu hlé-
barða eru helg engin vé.
Og reyndar nú hrellir
Rússana fellir:
Þar deyja bæði frændur og fé.


Prinsessa

Í Danaveldi er nú mikill fögnuður vegna þess inn í konungsfjölskylduna hefur fæðst barn og það meira að segja fyrsta stúlkubarnið í meira en hálfa öld.  Hún mun þó (að sjálfsögðu) ekki erfa kóngsríkið heldur eldri bróðir hennar sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir.

Nafn á nýju prinsessuna er ekki komið en látið var að því liggja að hún ætti að heita Margrét í höfuðið á föðurömmunni.  Ef að líkum lætur verða nöfnin fjögur til sex svo það ætti að vera hægt að koma bæði einu og öðru að þar.

Pabbinn, prins Friðrik, var alveg jafn stoltur og ruglaður og aðriri nýbakaðir feður og mældi með höndunum til að sýna pressunni hvað barnið væri langt og bætti við að hún væri svona um það bil hálfs metra löng.

Frést hefur fátt eitt betra
í fæðingarvottorð skal letra:
Stúlkubarn fætt
frísklegt og sætt
um fimmtíu sentimetra.

Og svo er bara að brjóta blað og yrkja á dönsku - prentsmiðjudönsku má líkast til kalla þetta mál og eins og allir vita eru stuðlar og höfuðstafir ekki til í útlöndum:

Naar det kommer til stykket

saa lyder det godt ; gör det ikke?

Med en dejlig pige

i det danske rige.

Derfor önsker vi hell og lykke.




Ófyrirleitinn þjófur

Undir fyrisögninni "Hrifsaði veski af öldruðum konum" í Mbl. í morgun mátti lesa eftirfarandi þar sem verið var að segja frá misindismanni sem auk annars hafði gerst sekur um að hrifsa veski af öldruðum konum:  "Meðal þess sem finna má í fjölmörgum liðum ákærunnar eru ófyrirleitin þjófnaðarbrot". 

Ég skannaði frétt eins og skot
en skjótt var ég komin í þrot
Núna mig fýsir
í frétt sem því lýsir
hvað er “fyrirleitið þjófnaðarbrot”.

Kannski samráð olíufélaganna?


Bernskudraumur?

Þegar ég var að horfa með öðru auganu á netútsendingar af vettvangi stórbrunans í gærdag sá ég slökkviliðsmann sem var alveg sláandi líkur Vilhjálmi borgarstjóra.  Roskinn, góðlegur með gleraugu og virtist vera á gangstéttarvakt.  Það var ekki fyrr en í fréttum um kvöldið að ég áttaði mig á að þetta var borgarstjórinn.  Hversvegna hann var í slökkviliðsbúningi veit ég ekki en búningurinn klæddi hann vel.  Mér finnst líka meira en sennilegt að hann hafi sem barn átt sér þann draum að komast í raðir slökkviliðsmanna þegar hann yrði stór.

Geðþekkur var hann og glaður
í gallanum leyfði sér daður
við draumana marga
um mönnum að bjarga
sem sleipur slökkviliðsmaður.


Nýbyggingar hér og þar

Eftir stórbruna í miðborg Reykjavíkur í dag er gott að heyra að stefna borgaryfirvalda virðist vera sú að byggja húsin upp aftur í sömu eða svipaðri mynd.  Þó ég sé ekki sérlegur aðdáandi gamalla fúaspýtna þá eru þær þó öllu skárri en stórbygging á við þá sem byggð verður á bílastæði Smáralindar í Kópavogi.  Gunnar Birgisson tók fyrstu skóflustungu í gær held ég og þó ég viti ekkert um það ímynda ég mér að það hafi hann gert með vélskóflu? 

Smáralindin vakti annars athygli fyrir getnaðarlega lögun sína þegar hún var byggð og nú virðist eiga að bæta um betur:

Gunnar á gröfunni fimur
galvaskur dagskipan rymur:
“Byggjum nú höll
svo beri í fjöll
sem beinstífur getnaðarlimur”.


Fjöruferðir

Í fréttum dagsins var greint frá miklu ferðalagi sem Forseti Alþingis lagði upp í ásamt nokkrum þingmönnum.  Ferðinni er heitið til Kaliforníu þar sem til stendur að heimsækja fylkisþingið og skiptast á skoðunum við kollega.  Það er reyndar ekki alveg ljóst hverjir eru kollegar því sendinefndin eins og hún leggur sig saman stendur af fólki sem innan örfárra vikna hættir þingmennsku (og ekki endilega af fúsum og frjálsum vilja).  Ég held samt ekki að þeir ætli að heimsækja fyrrverandi þingmenn þarna vestra eða hvað? 

Þau sett voru kaldan á klaka
en krókinn að síðustu maka:
Fá kokkteil og hlýju
í Kaliforníu
og koma svo eldhress til baka.

Í kvöld mátti svo lesa furðufrétt á mbl.is um konu sem festist í gjótu vestur við Ánanaust.  Þurfti að kalla til slökkvilið sem dró hana upp úr gjótunni með viðlíka aðförum eins og þegar flutningaskipið Wilson Muuga var dregið á flot við Hvalsnes fyrr í dag:  "Nokkrir fílefldir slökkviliðsmenn náðu að smeygja belti utan um konuna og toga hana út er þeir héldu um ökklana á henni". 

Í fjörunni þeir fundu konu eina
sem fallið hafði’ í gjótu milli steina
Laus er hún nú
sú lánsama frú
en “Bláskel liggur brotin milli hleina”.

Skeljar og steinar eiga heima í fjörum - ekki konur á hvolfi oní gjótum.

Heilsufar

Læknisheimsóknir eru dýrar og tímafrekar.  Hver hefur ekki lent í því að sitja til hálf tólf á biðstofu, þrátt fyrir að hafa átt tíma klukkan korter yfir tíu, hitta lækninn í fjórar stuttar mínútur, fara út með uppáskrift af astmalyfi eða sjúkraþjálfun og borga fyrir þetta heilan helling?

Nýleg könnun sýnir að ríflega 20% frestar því læknisheimsóknum í allt að sex mánuði.  Á meðan versnar astminn og vöðvabólgan og því þarf meiri lyf og lengri sjúkraþjálfun þegar hinn sjúki loksins drífur sig til læknis.  Þessi könnun sýndi að menn báru við "ýmsum ástæðum, s.s. tímaskorti eða fjárhagserfiðleikum".

Ef hálsinn er rámur og rauður
er rétt að í búi sé auður.
Því lækning er dýr
og fimmti hver fýr
því frestar og vaknar upp dauður.

Sumarmál

Sumarmál heita dagarnir frá í dag og fram á sumardaginn fyrsta.  Þess vegna var ég í sumarskapi í dag og það voru nágrannarnir líka.  Milli élja sást fólk að tína rusl, viðra börn og hunda og einn klippti tré með háværu verkfæri og kunni greinilega að beita því.

Þeir voru  reyndar líka í sumarskapi hjá Samfylkingunni á föstudag þegar Ingibjörg flutti stefnuræðu sína.  Undirtektir voru víst engu líkar og munu fulltrúar hafa klappað henni lof í lófa í alls tuttugu og tvö skipti meðan hún talaði. 
Ekki slæmt.

Þó nokkuð gert að því gys var
að á glæstri tölunni ris var:
En fyrr má nú vera
víst þurfti’ að gera
ræðustopp tuttugu´og tvisvar.

Landsfundi í Laugardal lauk með kosningu formanns.  Af nær 2000 fulltrúum virðist þó ekki nema helmingur hafa haft (eða nýtt sér) kosningarétt því í formannskjöri kusu 906 samkvæmt mínum heimildum.  Geir kusu 95,8% en þar með hljóta þau 4,2% sem uppá vantar að vilja einhvern annan sem formann. Prósentureikningur segir þetta vera 38 villuráfandi sauði. 

Um staðreyndir þarf ekki’ að þrátta
og þetta var landsfundur sátta.
Sætur er Geir
en samt eru þeir
sem hann þola ekki' þrjátíu og átta.

Sætur eða ekki.  Kristinn H. Gunnarsson var að minnsta kosti heppinn þegar hann slapp ómeiddur úr bílveltu í gærkvöld á Steingrímsfjarðarheiði.  Hvað hann var að gera þar veit ég ekki en giska á að hann hafi verið á atkvæðaveiðum.

Er Kristinn hann kagganum velti
kappinn var festur í belti
og ómeiddur slapp
sem er ótrúlegt happ
en atkvæðið hvarf, sem hann elti.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband