Frekjurgangur

Í útvarpinu var í morgun sagt frá ótrúlegum frekjugangi Akureyringa.  Fullorðnir menn þar á bæ stunda það að reka smákrakka af sparkvöllum bæjarins til að þeir sjálfir geti leikið sér með bolta.  Þetta var dramatísk frétt og ég sá þá fyrir mér koma brunandi á Landcrusierum og Pathfinderum, leggja undir rólunum og reka grenjandi krakkana heim.

Fortíðar- fullir af -þrá
þeir fara á kvöldin á stjá:
Á skólanna velli
þeir skunda í hvelli
og bægja þar börnunum frá. 

Sennilega sömu kallar og röfla svo yfir því að æskan nú til dags nenni engu nema að hanga inni í tölvuleikjum.

Annars voru frábærar myndir Moggans í morgun af landsfundinum í höllinni.  Grænar rómantískar hlíðar, hreinleiki og fegurð.  Vantaði bara að flokkurinn ályktaði um nauðsyn þess að allir færu á grasafjall í haust.

Við erum flokkur á grænni grein
sagði Geir og fékk ekki andsvör nein.
Ekki liggur á liði
sínu, leikrænn sviði
og leiktjöldin minntu á Skugga Svein.

Nú verður spennandi að sjá bakgrunn Ingibjargar í Egilshöllinni -



Fuglar og flokksþing

Um helgina er haldin vegleg trúarhátíð í Laugardal.  Landsfundi Sjálfstæðisflokksins hefur víst aldrei fyrr verið pakkað inn í jafn glæsilegar umbúðir og nú sjást í dalnum.  Innihaldið er þó vísast hið sama gamla og stefnuræðan heldur þreytt.  Þó er að sjá að flokkurinn muni flykkja sér um flugvöll í Vatnsmýrinni og aukna vinnu fyrir aldraða. 

Þetta með flugvöllinn er nú svo mikið bull að það tekur því ekki að berja saman limru um málið.  Hinsvegar skil ég ekki alveg hvað býr undir því að gamla fólkið eigi að fara að vinna lengur?  Er ekki eftirlaunaaldur eitt af baráttumálum verkalýðshreyfingarinnar í bráð og lengd?

Af flokksþingi fáum að vita
að formaður mælti af hita
og alvöruþunga
enda Geir engin gunga:
"
Leyfum öldruðum áfram að strita".

En auðvitað hljóta að vera til aldraðir sem hætta nauðugir og þeir hljóta að gleðjast við þessar fréttir.

Önnur frétt frá því í dag var um slæmar horfur á lundaveiði í Vestmannaeyjum.  Fátt er víst til ráða en úr varð að halda fund um málið þó sennilega fjölgi ekki fuglunum við það eitt.  Ég hef enga skoðun á lundaveiðum en mér þykja lundar krúttlegar en bragðvondar skepnur svo mín vegna mætti veiðin bregðast árlega

Í Eyjum þeir ákafir stunda
að aflífa krúttlega lunda
en veiðin ef brestur
er valkostur bestur
að efna til umræðufunda.


Allt við það sama

Lítið breytist við tíu daga dvöl fjarri fósturjörðinni.  Bestu fréttirnar sem við fengum meðan á dvölinni ytra stóð voru þær að Hafnfirðingar höfnuðu deiliskipulaginu sem kosið var um í lok mars og komu þar með í veg fyrir stækkun álversins.  Ég verð að viðurkenna að ég var orðin hrædd um að hótanir Alcan um lokun verksmiðjunnar yrðu of þungar á metunum en auðvitað sáu Gaflarar í gengum slíka leikjafræði.

Í kosningum gerðu það gott
Gaflarar, þrátt fyrir plott.
Þeim tókst að vinna
verksmiðjusinna
sem sig hótuðu að hafa á brott.

Annars var allt með kyrrum kjörum við heimkomuna í gær.  Ríkisútvarpið ohf var með kosningafund meðan við ókum Reykjanesbrautina  og mér telst til að það sé búið að senda út kosningaefni í c.a. 7 klukkustundir á þessum rúma sólahring sem er síðan við lentum. Slíka skemmtun boðar það síðan alla daga fram að kjördegi.  Frábært!  Eins og oft áður er þetta þjark og þref í beinni og menn takast á með slagorðum.

Hvergi finnast á byggðu bóli slík
og börnum ei kennir neinn skóli lík
fangbrögð og fá
nú firðar að sjá

þótt fjölmiðlar kalli það pólitík.


Fyrsta frétt útvarpsins í morgun var annars sú að lánshæfi íslenskra banka hefði lækkað um heil þrjú stig sem er meira en nokkrir aðrir bankar lækkuðu í þetta skipti.  Aðalfrétt Morgunblaðsins var hinsvegar um byggingaframkvæmdir eins af þessum bönkum, en Glitinr ætlar að fara að byggja stórhýsaþyrpingu til að rúma starfsemina.

Nú lánshæfi Glitnis mun lækka
og líklegast starfsmönnum fækka
og því er í bráð
bjargvænlegt ráð
stórhýsi bankans að stækka.

Hér gildir sem fyrr að sókn er besta vörnin en vonandi þarf þó ekki að hækka þjónustugjöldin þegar líða fer á byggingatímann.

 


Páskafrí

Ég er komin í páskafrí og ætla að nota það til að vera fjarri heimahögum og að öllum líkindum líka fjarri tölvum.  Ég ætla að nota það til að ganga um erlend fjallahéruð og njóta veðurblíðu, framandi menningar og samveru með góðum félögum.

Í bili’ er það skilnaðarskeytið
því skjótt eða’ um hálffimm-leytið
á fætur ég fer
og flýti þá mér:
Ú
t í heiminn er ferðinni heitið.

Nú er því eins gott að ganga til rekkju ef ég ætla að ná í kríu fyrir flugið!


Á varðbergi enn og aftur

Varðberg, félag ungra (!) áhugamanna um vestræna samvinnu fundaði í dag.  Hinir ungu áhugamenn fengu Björn Bjarnason til að halda erindi og hann brást ekki.  Ef mark er takandi á frásögnum fjölmiðla af samkomunni þá var Birni ofarlega í huga að stofna 240 manna varalið lögreglu "sem hægt væri að grípa til ef þörf krefði vegna öryggis ríkisins". 

Af hverju Björn vill hafa mennina 240 en ekki 200 eða 250 var ekki sagt í fréttinni.  Ég hefði til dæmis valið að hafa mennina 239 sem er prímtala og því ólíkt skemmtilegri tala en 240.  En stórt hundrað er vissulega 120 og  eðlilegt að í svo mikilvægt verkefni þurfi tvö stór hundruð.

Það segir í máltæki’ að mjór
mikils sé vísir og rór
Björn karlinn er
með byrjandi her
sem telja mun tvöhundruð stór.


Línurnar lagðar ...

.. í jörð!  Já nú eru þeir hjá Alcan orðnir svo skjálfandi á beinunum að þeir komu með þetta kostaboð í dag.  Allar raflínur í jörð!  Þeir ætla að borga brúsann ef stækkun verður samþykkt og þetta mun kosta þá litlar 800 milljónir.  Eitthvað eru þeir að græða á raforkuverðinu?

Það að leggja raflínurnar í jörð ætti auðvitað að vera sjálfsagt mál því það er sjónmengun að ljótum möstrum og línum.  Ekki er þó síður mikilvægt að ýmislegt bendir til þess að mikið návígi við háspennulínur geti verið hættulegt heilsu fólks.  Því ætti krafa Hafnfirðinga að vera að línurnar verði lagðar neðanjarðar hvort sem deiliskipulagið verður samþykkt eða ekki.

Í framtíð glöggt er að græða
Gaflarar á því að hræða
Alcan og Rist
sem reyndar þá fyrst
bjóðast til þess að blæða.


Í drápshug

Þegar Sjálfstæðismenn gengu síðast til borgarstjórnarkosninga var meðal kosningaloforðanna að þeir ætluðu að losa borgarbúa við sílamáva sem hafa fjölgað sér allnokkuð í borginni á liðnum árum. 

Þetta var svona eins og hvert annað loforð og enginn átti von á efndum, ekki frekar en menn bjuggust við ókeypis dagvistun eða flugvelli á Lönguskerjum.  En hvað er ekki að gerast?  Nú ætlar Gísli Baldur að fara á stúfana við annan mann og drepa mávana á hreiðrum í júní.  Eða eins og segir í frétt mbl um málið:

"Beitt verður svefnlyfi sem sett er í brauðmola. Molarnir eru síðan lagðir í hreiður mávanna og þau hreiður merkt. Mávarnir éta síðan molana og sofna á hreiðrunum".

Ok sofna - en ekki svefninum langa - ónei.

"Meðan þeir sofa er gengið um varpið og mávarnir teknir, þeim lógað sársaukalaust og hræin fjarlægð. Síðan er annar molaskammtur lagður í hreiðrin og beðið eftir að makarnir komi á hreiðrin, éti molana og sofni".

Þá hlýtur að þurfa að fara aðra drápsferð og drepa makana "sársaukalaust".  Mig langar síðan að vita hvar ungarnir eru meðan á þessu stendur?  Ekki komnir úr eggjunum?  Verður þá ekki mikið eggjapartí hjá minkum höfuðborgarsvæðisins?  Með hverju á svo að eitra fyrir þeim?  Og hvernig á að tryggja að einungis mávar éti eitrið?  Ef eitrið svæfir máv hlýtur það þá ekki að steindrepa smærri fugla ef þeir næla sér í bita í ógáti?  Spyr sá er ekki veit.

Við mávager hyggst fara’ í hart einn
hólmgöngumaður, þó vart einn
að illvirkjum standi
og ungunum grandi
hinn geðþekki Gisli Marteinn.

En það verður "gaman" að fylgjast með þessum fuglaslátrunum þegar dagur er lengstur í júní.




Forvarnir

Ég var annars hugar að hlusta á útvarpsfréttir klukkan átta í morgun.  Ég var á leið úr húsi og mest af öllu að leita að bíllyklunum.  Þá var lesinn upp listi yfir styrkveitingar úr Framkvæmdasjóði aldraðra og þar kom í ljós að maður "sem barist hefur gegn fíkniefnaneyslu, hefur tvívegis fengið styrk úr sjóðnum til forvarnastarfs meðal aldraðra ".  

Braust út mín undrun með ópi
við öðru ég bjóst úr þeim hópi:
Nú skal búast til varna
svo velflestra barna
langömmur lendi’ ekki’ í dópi.

Eins gott að hann fékk styrkinn.

Dólgslæti

Í fréttum helgarinnar segir frá fingurbrotnum leigubílstjóra í Garðastræti.  Hann mun hafa lent í átökum við farþega með þessum afleiðingum.  Flugdólgar eru þekkt fyrirbæri en þarna munu hafa verið að verki leigubíladólgar sem síst eru betri.

Ég frétt heyrði leiða og ljóta
um leigubílsdólga í Grjóta-
þorpi en þar,
ef fá ekki far
bílstjórans fingur þeir brjóta.

Ég er reyndar ekki alveg viss um hvort Garðastræti teljist vera í Grjótaþorpi en miðbæjarlandafræði mín er heldur ekki upp á marga fiska.

Japan þýðir víst "land rísandi sólar" eða eitthvað í þá veru.  Mogginn greinir í dag frá japönskum manni sem mun hafa verið misboðið þegar búið var að byggja blokk sem skyggði sólina frá honum séð.  Hann náði í byssu og hóf skothríð - nema hvað.

Erfitt er held ég að hugga
þann hálfvita’ er leit út um glugga
og gerði með byssu
bölvaða skyssu:
Hann reyndi að skjóta á skugga.


RUV - ohf

Í Mogganum í dag var sagt frá samningi sem gerður var á milli Þorgerðar Katrínar menntamálaráðherra og forstjóra ríkisútvarpsins ohf, Páls Magnússonar  "um útvarpsþjónustu í almannaþágu".  Mynd sem fylgdi fréttinni sýndi alvarlegt fólk að undirrita miklvægan samning.  Almenningi sárnar þó að fyrsta afrek hins nýja útvarpsstjóra var að glopra helstu skrautfjöðurinni síðust árin eða Formúlunni.  Mikið afrek í almannaþágu. 

Þessa samningsgerð allmargir efa
hún mun alls ekki harm þeirra sefa:
Því ástandi bágu
í almannaþágu
lýsir Formúlu frá sér að gefa.

En mér er svo sem sama - ekki horfi ég á bílaleikinn!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband