22.3.2007 | 23:09
Efst á baugi
Efst á baugi í mínum huga þessa dagana er álverskosningin í Hafnarfirði. Það verður forvitnilegt að fylgjast með því hvað gerist ef og þegar íbúar Hafnafjarðar afþakka mengun og svifryk handa sér og okkur öllum og segjast sælir með núverandi stærð af álveri.
Í hafnfirsku kolunum hitnar
og í hagsældarspárnar nú vitnar
álgróðalið
þó öll sjáum við
að mengun á byggðinni bitnar.
Annars er Baugur enn efst á baugi og nú eru það yfirlýsingar hæstaréttardómarans sem kallast á við yfirlýsingar sambýliskonu eins af hinum ákærðu í málinu. Sigurður Líndal tjáði sig um að yfirlýsingar dómarans væru einsdæmi og í sama streng tóku fleiri lögfræðingar ef marka má fréttir Rúv í kvöld. Sigurður er annars orðvar og sagði ekkert ljótt þó það hefði verið gaman - svona rímsins vegna.
Hann Líndal línurnar beinar
leggur og einsdæmi meinar
dómarans hegðan
þó samt ekki segð hann
að sauður væri Jón Steinar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.3.2007 | 22:46
Brunaliðsmenn
Mogginn greinir í dag frá amerískri rannsókn um slökkviliðsmenn og hjörtun sem berjast fyrir innan stakka þeirra. Í ljós hefur komið að þeim er hættara við hjartaáföllum en flestum öðrum starfstéttum og jafnframt hættara við að deyja af slíku áfalli ef ég hef lesið rétt. Skyldu þeir vita þetta litlu krakkarnir (strákarnir?) sem vilja verða slökkviliðsmenn þegar þeir vaxa úr grasi? Eða vilja nútímabörn bara vera bleidarar og bankamenn?
Sjaldan þeir karlarnir kvarta
sem kæfa eldana bjarta:
En rannsóknir kynna
að kappanna vinna
sé hættuleg sérhverju hjarta.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2007 | 22:38
Af Bretum
Maður sem var að fljúga með British Airways vaknaði við það að verið var að koma fyrir látinni konu í sætinu við hlið hans. Hann kvartaði en ég veit svo sem ekki yfir hverju? Varla ónæði? En sennilega hefur hann bara verið leiður yfir að hafa engan að spjalla við. Vonandi að heimferðin hafi verið líflegri.
Farþeginn víst er að vona
að verði ekki heimferðin svona:
Því daufari ei ferða-
félagar verða
en fjörgömul steindauð kona.
Meira af Bretum. Hin breska ofurfyrirsæta Naomi Campbell var dæmd í New York fyrir að kasta farsíma í þernu og gat valið um að sinna samfélagsþjónustu eða sitja inni. Hún valdi samfélagsþjónustuna og mætti í morgun til skúringa hjá hreinsunardeild borgarinnar. Hún var á praktískum hælaskóm í stuttri hentugri kápu en var þó ögn skömmustuleg á svip sýndist mér.
Um nætur vill Naomi lúra
utan napurra fangelsismúra
og því varð að mæta
módelið sæta
skömmustuleg til að skúra.
Merkilegt annars hvað farsímaofbeldi er að verða útbreitt!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2007 | 22:39
Veðurfréttir
Stundum erum við rækilega minnt á það að við búum á Íslandi. Síðustu dagar hafa verið ósviknir íslenskir vetrardagar og þegar ég hlustaði á kvöldfréttir útvarpsins áðan var lesinn upp langur listi af ófærum fjallvegum - ég náði bara því helsta:
Víkurskarð ófært er enn,
á Oddskarði bylur og senn
þeir hætta að moka
Hellis- og loka
-heiðinni snjóruðningsmenn.
Þetta er þó endursagt án ábyrgðar og vissara að hringja í 1777 ef menn ætla sér yfir heiðar.
Bloggar | Breytt 19.3.2007 kl. 08:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2007 | 15:40
Sagan endalausa
Í héraðsdómi heldur hún áfram, sagan endalausa. Nú var það Styrmir Morgunblaðsritstjóri sem þar mætti til að skýra frá hvernig maður skrifar tölvubréf í "gamansömum tón". Greinilega mjög spaugsamur maður og bréfin gætu orðið enn skemmtilegri ef einhver vildi kenna honum að skreyta þau með brosköllum
Styrmir í réttinum staður
stökk ekki upp með neitt blaður
enda því trúr að
inn- skuli -múrað
hver er ónefndur innvígður maður.
Hann talaði heldur ekki af sér þegar fréttamenn náðu í hann eftir að hann hafði svarað spurningum dómara; sagðist hafa sagt allt í bili. Kjartan Gunnarsson talaði heldur ekki af sér hvorki fyrir rétti né við fréttamenn. Hann bara mætti ekki og var sagt að ekki hefði tekist að koma til hans boðum um að hann ætti að mæta. Hann er sennilega ekki með farsíma?
Hann Styrmir var stúrinn og grettinn
og því stóð ekki lengi sú fréttin.
En Kjartan um tíma
tók ekki síma
og því tókst ekki' að boða hann í réttinn.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.3.2007 | 23:08
Auðlindir hvað?
Í Framsókn þeir fengu ekki byr
og um frumvarp var heilmikill styr.
Þeir lokuðust inni
í leikfléttu sinni
með alls engar útgöngudyr.
Þeim er nú eiginlega vorkunn - héldu sig vera með unna stöðu og ótal atkvæði.
Veraldargengi er valt
og vísast er greyjunum kalt:
Nú undir feld
sér forða í kveld
en frumvarpið sett var í salt.
En svona er nú einu sinni rolugangurinn - eða er betra að segja rollugangurinn?
Í gervöllum heimi ei gauð finndir
sem gætu minnt betur á sauðkindir,
en framsóknarmenn,
sem finnast hér enn
með afdankað frumvarp um auðlindir.
Bloggar | Breytt 16.3.2007 kl. 09:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.3.2007 | 23:53
Hið ljúfa líf
Baugsmálið fékk mikla athygli í dag þegar mótorbáturinn Víkingur var til umfjöllunar fyrir rétti og þar með í öllum fjölmiðlum. Margtuggnar skýringar á því hver átti bátinn og hver ekki voru enn bornar þar á borð. Ekkert veit ég um það en gaman væri að vita hvar þetta dýrðarfley er í dag og hvort það sé ekki örugglega hætt að sigla áætlunarferðir með íslenska fyrirmenn og -konur meðfram Flórídaströndum?
Margri henda í réttinum hnútu
um handhafavald yfir skútu:
Var það Jón Gerald
sem keypti það kerald?
Og er það fley ekki framar í rútu?
Meðal heimsfrétta gærdagsins var ein sem vakti athygli mína: "Nakinn sendiherra kallaður heim". Sem betur fer var "heim" í þessari frétt Tel Aviv en ekki Reykjavík og sendiherrann var ísraelsk bytta með perralæti í El Salvador. Málið þykir allt hið óþægilegasta fyrir ísraelsk stjórnvöld sem hafa beðið hnekki undanfarin misseri vegna ýmissa hneykslismála.
Í Ísrael víst er nú verra sett
valdastétt, eftir að perrafrétt
flaug út um svið
um furðulegt lið
sem finnst þar í sendiherrastétt.
Bloggar | Breytt 15.3.2007 kl. 07:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.3.2007 | 23:03
Heilagt hjónaband
Í fréttum í gær var greint frá konu sem giftist látnum manni. Þetta var á Indlandi og brúðguminn lést þegar hann datt ofan í brunn stuttu eftir að hann trúlofaðist unnustu sinni, sem nú hlýtur að vera ekkja hans? Þetta getur varla hafa verið fjörug brúðkaupsveisla hvað þá brúðkaupsnótt.
Því má fletta' upp í alls konar fræðum
og fornum sem nýjum skræðum
að ef gagn á að gera
má gaurinn ei vera
dauður úr öllum æðum.
Hin hliðin á málinu er að þessi hjón eiga ekki eftir að vera með í tölfræði yfir fráskilin pör. Þaðan af síður ætti konan að þurfa að fara að ráðum reiðra fráskildra kvenna í Evrópu sem hvetja aðrar fráskildar konur til að losa sig við reiðina með því að brenna brúðarkjólana sína.
Ef reiðin á konum að renna
ráð vilja fráskildar kenna:
Þú losnar við stressið
ef læturðu dressið
á bálkesti veglegum brenna.
Reyndar má nú hugsa sér að sú indverska hafi neyðst til að brenna kjólinn til að losna við nályktina!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.3.2007 | 23:06
Hnattvæðingin
Sérdeilis er það skemmtilegt hvað við Íslendingar erum að verða alþjóðlegir í háttum. Árum saman höfum við heyrt og lesið um fótboltabullur í útlöndum og nú viljum við komast á blað. Við byrjum að sjálfsögðu í þjóðaríþróttinni, handboltanum. Fjölmiðlar greina frá því að brotist hafi út slagsmál um helgina þegar Stjarnan burstaði Fram (eða var það öfugt?) í venjulegum handboltaleik um miðjan dag á laugardegi. Tekið var fram að þeir sem hlut áttu að máli hefðu ekki einu sinni verið ölvaðir!
Það er auðvitað ekki grín að þessu gerandi og ég býst við að íþróttahreyfingin hafi af þessu stórar áhyggjur. Reyndar heyrði ég ekki betur í kvöld en að það ætti að hafa lögreglumenn á áhorfendapöllum í næstu leikjum til að hafa hemil á ófriðarseggjum en það getur nú hafa verið misheyrn.
Það er hollt fyrir handboltalúða
að halda sig stillta og prúða
ef á leikjunum öllum
má líta á pöllum
löggur í fullum skrúða.
Vonandi er þetta samt bara einstakt atvik og ekki til marks um versnandi tíma í boltanum?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2007 | 22:52
Gestagangur
Þá er enn ein helgin komin og farin. Hún hefur verið notadrjúg til samveru með fólki bæði heima og heiman.
Gestagangur í titlinum á samt aðallega við gesti af því tagi sem heimsækja landið okkar af og til og fá við það heitið Íslandsvinir - nafngift sem við síðan notum yfir viðkomandi um aldur og ævi. Nú var það hinn ástsæli leikari Leonardo diCaprio sem kom hingað í snögga ferð og fór út á land og lét mynda sig. Hann er sagður hafa verið kurteis í hvívetna að minnsta kosti á tökustað og landið mun ekki hafa afmyndast að ráði.
Þá detta mér í hug klámhundarnir sem fengu alls ekki að láta mynda sig hér. Það reyndi því ekki á kurteisi þeirra á staðnum en í staðinn eru þeir víst að hugsa um að stefna okkur öllum fyrir skort á gestrisni. Allt svona frekar lúðalegt og sem fyrr okkur líkt að gera mun á Jóni og séra Jóni.
Það er munur á Jóni og Jóni
en jákvætt að alls enginn dóni
er Leonardo
di Caprio
á ljósmyndum austan úr Lóni.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.7.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar