8. mars

Mikið hefur verið talað um klám í dag eftir að Fréttablaðið birti frétt af því að bæklingur frá Smáralind þætti klámfenginn.  Þetta var sagt mat Guðbjargar Kolbeins sem er prófessor (?lektor, dósent) í fjölmiðlafræði vestur á Melum.  Forsíða bæklingsins sýnir unglingsstelpu í hælaskóm og Guðbjörg segir hana vera í þekktri klámstellingu eða eitthvað í þá veru. 

Ég verð nú að játa að ég var búin að skoða bæklinginn án þess að þessi hugrennigatengsl vöknuðu hjá mér.  En ég var hinsvegar búin að reka augun í tilvitnun inni í bæklingnum þar sem segir að fatnaður frá tilgreindu fyrirtækin sé hannaður fyrir "lifandi dúkkur".  Mér þótti þetta ósmekklega að orði komist því allar konur - bæði fermingastelpur sem og mömmur þeirra og ömmur eiga betra skilið en að vera líkt við viljalaus leikföng. 

Ég las blogg Guðbjargar um málið og fannst hún full harðorð og hún notaði orð sem mér eru ekki töm.  Frá henni koma orðin meyja og skaufi í limrunni hér á eftir.  Ég er ekki frá því að hún hafi farið aðeins yfir strikið.  Stundum er "understatement" betra.  En fyrir þá sem ekki hafa séð bæklinginn:

Þar er glottandi stelpa að gaufa
á glansandi forsíðu’ en klaufa-
l
egt þó er að segja
að þetta sé meyja
og þarna að bíða’ eftir skaufa.

Í hamaganginum sem nú stendur yfir þessa síðustu daga ríkisstjórnarinnar vöknuðu landsmenn við að búið var að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands.  Verra er þó er að starfsmenn stofnunarinna vöknuðu víst líka upp við tíðindin.  Þeim var tilkynnt þetta í tölvupósti samkvæmt frásögn Sighvats Björgvinssonar sem talaði til mín og annara hlustenda Rásar 1 frá Malaví í morgun.

Hann skilur ei baun í bala í  því
bráðlæti er sýnir Vala í
að leggja hann niður
sem ljótur er siður
þegar maður er staddur í Malaví.

Þorleifur frá Holti

Alltaf gleðjumst við yfir útrásinni.  Nú var það farfugl merktur í Holti í Önundarfirði sem sást suður í Evrópu um daginn.

Farfugla víst er það vani
að vera um Evrópu á spani.
Nú það hefur frést
að þar hafi sést
Þorleifur jaðrakani.

En einhver spaugari hafði nefnt fuglinn Þorleif þegar hann var merktur fyrir nokkrum árum.

Önnur og ekki eins gleðileg frétt var um "farsímaofbeldi". Forvitni mín var vakin eins og skot.  En farsímaofbeldið var ekkert annað en venjulegt ofbeldi og það af grófasta tagi. Maður sem lét símanotkun kærustunnar fara í taugar sér tók símann og tróð honum ofan í kok henni þannig að henni lá við köfnun.

Hann upp hafði reiður rokið
er reyndist spjallinu lokið
og fljótlega blá
var fraukan að sjá
er hann farsíma’ tróð oní kokið.

Þetta er auðvitað ekkert til að gera grín að, en sem betur fer endaði þetta vel.  Stúlkan hélt lífi og kærastanum verður stungið inn upp á vatn og brauð og fær að lifa á því fæði í nokkur ár.

 


Útrásarskóli

Aldrei hætta framsóknarmenn að koma mér á óvart.  Nú síðast Valgerður.  Hún brá sér út fyrir landsteinana, nánar tiltekið til London og hélt þar ræðu um skólamál.  Tilvitnun í mbl:

"Valgerður Sverrisdóttir, utanríkisráðherra, sagði á hádegisverðarfundi í Lundúnum í dag, þar sem staða íslenskra fyrirtækja í útlöndum var rædd, að ríkisstjórnin væri að velta fyrir sér þeirri hugmynd, að setja á stofn alþjóðlegan skóla á Íslandi fyrir börn erlendra starfsmanna íslenskra fyrirtækja og þar sem námsefni fyrir allt grunnskólastigið og upp í stúdentspróf yrði kennt á ensku. Valgerður sagði, að það væri verkefni ríkisstjórnarinnar, að sjá til þess að íslensku útrásarfyrirtækin sæju sér áfram hag í því að hafa höfuðstöðvar á Íslandi. Einnig þyrftu stjórnvöld að hlúa að fjölskyldum starfsmanna fyrirtækjanna og þessar hugmyndir tengdust því".

Halló.  Er ekki búið að hamra stanslaust á því að grunnskólar séu í verkahring sveitarfélaga?  Eiga þá útrásarbörnin ein að vera undir verndarvæng ríkisstjórnarinnar? 

Og útrás?  Þýðir það ekki að íslenskir spekúlantar flytja til útlanda til að vera nær peningunum sínum og Duran Duran?  Afhverju ættu þá börnin að vera í skóla á Íslandi að tala ensku?  Er þetta ekki bara tilraun til að stofna yfirstéttarskóla þar sem peningar verða ekki skornir við nögl?

Merkileg finnst mér sú frétt
og furðuleg ef hún er rétt:
Fyrir útrásarbörn
er Vala í vörn
og
 þau verndar frá alþýðustétt.

Ef ríkisstjórnin vill setja á stofn skóla og veita peningum í alþjóðlega kennslu þá vil ég benda á að í dag var birt skýrsla um börn í íslenska skólakerfinu sem hafa annað móðurmál en Íslensku.  Þar kenndi margra grasa og þó að ég hafi ekki náð tölunum heyrði ég þó að pólsk börn eru langflest.

Ef bæta vill barnanna hag
ég býst við að núna sé lag
og lýsi ekki fólsku
að fræða á pólsku,
þau börn sem hér búa í dag.

Nýbúadeildir skólanna gætu örugglega notað eitthvað af þeim peningum sem Vala ætlaði að splæsa á útrásarliðið og ég trúi ekki öðru en að hún vilji "hlúa að fjölskyldum starfsmanna fyrirtækjanna"  jafnvel þó að það séu bara fiskverkunarfyrirtæki.

 

 


Afturbatapíka?

Ég tek það fram að ljótur titillinn er gamalt orð (danskættað?) og að píka í þessu orði merkir eiginlega bara stúlka.  Orðið aftubatapíka merkti þannig í minni heimasveit stúlka sem reynir að bæta ráð sitt eftir að hafa verið staðin að ósæmilegri hegðun.

Þetta orð kemur aftur og aftur upp í hugann þegar litið er á Framsóknarflokkinn og landsfundarbrandarann sem þeir héldu á Sögu um liðna helgi.  Nú eru 70 dagar í kosningar og eftir samfellt gjálífi með íhaldinu lengur en elstu menn muna reynir nú maddaman að láta líta út fyrir að hún sé saklaus og óspjölluð mey sem dregin hafi verið á tálar.

Skemmtilegasta atriðið í kjölfar fundarins er að stjórnarandstaðan hefur nú boðist til að hjálpa Framsóknarmönnum við að koma einu helsta baráttumálinu í höfn; nefninlega því að stjórnarskrárfesta ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar á eigin auðlindum.   Nú eru þeir því í klemmu en sennilega lítil hætta á að þeir hafi djörfung til standa við stóru orðin.

Fráleitt við stóryrðin standa
og stefnir í heilmikinn vanda.
Fréttast mun enn
að framsóknarmenn
eru lítilla sæva og sanda.

Í þessu máli  gekk Siv einna lengst í hótununum og vill greinilegt að hún vill gjarnan losna við íhaldið á lokasprettinum.  Ég gat hinsvegar ekki skilið annað en að Jón formaður væri að reyna að bera orð hennar til baka.

Málin hann ræðir og rifjar
og reynir að bera þær klyfjar
sem sjáum oft axla
þá seinheppnu jaxla
er burðast með byrðarnar Sivjar.

Farsinn heldur áfram næstu daga og verður gaman að fylgjast með sprellinu.

Fjölgun í nánd

Já flokkafjölgun.  Tveir nýjir í dag ef trúa má kvöldfréttum sjónvarps.  Ómar var reyndar ekki alveg tilbúinn með yfirlýsingu en virtist samt vera á fullri ferð.  Hvar finnast annars frambjóðendur á alla þessa lista?

Bætast við flóruna flokkar
sem fá vilja atkvæðin okkar:
Umhverfisvænir,
aldraðir, grænir
Já Alþingi laðar og lokkar.

Kjörseðillinn gæti orðið nokkrar blaðsíður með þessu framhaldi.


Fagurgali

"En bæði frá hægri og vinstri eru menn að laumast inn á miðjuna og blekkja fólk til fylgilags við sig með fagurgala".  Orðrétt tilvitnun í setningarræðu formanns Framsóknarflokksins á flokksþinginu sem hófst í dag.  Ræðan var annars dæmi um fagurgala og orðskrúð og merkilega gaman að heyra hvað formaðurinn hrífst af eigin orðum; hann var af og til við það að klökkna yfir eigin orðheppni.

Nú þráfalt loforðin þylja
og þykjast plana að skilja
við íhaldsmaka
og ætla að taka
að sýna sjálfstæðan vilja.

Undirbúningur undir þetta flokksþing hefur annars staðið síðustu dagana og mikið hefur gengið á.  Nú á að kýla á það:  Lánshlutfall til íbúðarkaupa hækkað einn daginn; auðlindum skal skilað til þjóðarinnar þann næsta og matarverðið að sjálfsögðu miklu lægra í dag en í gær.  Allt er þetta og meira til skilst mér að sé Framsóknarflokknum að þakka sem og fjöldi sólskinsstunda í febrúar en þær hafa aldrei verið fleiri.

Hér matvara flest loksins lækkar
og lánshlutfall íbúða hækkar
Kjördagur nær
er nú en i gær
og um sinn í Framsókn ei fækkar.

Ég vaknaði annars við Guðna Ágústsson í morgun þar sem hann var að tjá sig um stjórnarskrána og um að nauðsynlegt væri að festa þar inn ákvæði um eignarrétt þjóðarinnar á eigin auðlindum!  Þakka skyldi honum.  Gott að hann mundi eftir þessu svona korter í kosningar.  Annars skilst mér að í Þjóðarpúlsi Gallup frá í gær hafi Framsókn þokast upp í 10% svo ekki mikið þó að kallgreyið hafi verið kátur.

Guðni er ólmur og ær
og æstur síðan gær
er framsókn að nýju
fór upp í tíu
(sem er margfalt meir en hann fær). 


En hvað veit maður kannski fá þeir svo 10% eftir allt saman - við erum svo gleymin.
 


Fréttamat

Fjölmiðlunum sem færa okkur fréttirnar er vandi á höndum.  Þeir sitja á miklu magni upplýsinga og verða auðvitað að velja hverju þeir vilja miðla til okkar og hverju þeir eiga að sleppa.  Oft tekst þeim vel upp en stundum er vitleysan sem þeir bera á borð fyrir okkur svo yfirgengileg að við fyllumst aumingjahrolli.  Þannig fór er ég las í annað skipti fréttina um að Helen Mirren, sem var aðalverðlaunahafinn á nýliðinni Óskarsverðlaunahátíð, hefði ekki verið í nærbuxum undir dragsíðum kjólnum.  Og hvað með það?  Hvers vegna í óskupunum er þetta frétt til að senda út yfir heimsbyggðina segi ég sem sit hér sokkalaus og skólaus?

Margoft er della og djók
í dagblöðum.  Steininn úr tók
þó er sögð var sú frétt
um að satt væri’ og rétt:
Sú er verðlaun fékk, var ekki’  í brók!

Sem orðskýring má fylgja með að orðið brók er norðlenska og getur allt eins átt við um dömulegar kvenmannsnærbuxur eins og svellþykkt föðurland.

Baugur og spaug.

Það er nú varla neitt spaugilegt við Baugsmálið lengur.  Allir - og þá meina ég allir - hljóta fyrir löngu að vera komnir með upp í háls af þessum farsa sem er settur upp í Héraðsdómi alla virka daga frá 9 til 5.  Reyndar eru menn í augnablikinu ögn spenntir yfir nýjum gestaleikara en rætt hefur verið um að fá hinn sívinsæla Dabba til að taka að sér lítið en áhrifamikið hlutverk.  Vonandi fær það sápuna til að freyða í nokkra daga:

Í Baugsmáli beita menn orðum
þó berjast helst vildu með korðum.
Nú inn vilja labba
láta hann Dabba
sem lét ekki múta sér forðum.

Annars vekur það mér helst furðu hvernig hægt er að spyrja menn út í fundi og samræður mörg ár aftur í tímann.  Það er að minnsta kosti eins gott að ég reyni að halda mig utan réttarsala því ég yrði strax dæmd fyrir fákænsku og minnisleysi.  Ég man ekki fyrir horn og hvað gerðist vorið 2002 veit ég  ekki fyrir mitt litla líf.  Ég hugsa að ég gæti helst giskað á að það árið hefði skírdag borið upp á fimmtudag.

Vakið það furðu mér fær
hve fjölbreytt orðin og tær
útúr þeim buna
sem allt virðast muna;
sjálf öllu hef gleymt frá í gær.
 

Kínafréttir

Í Mogganum voru tvær fréttir frá Kína í gær, jæja eða fyrradag.  Önnur var um kaupsýslumanninn sem var kominn í vanda því konan hans ætlaði að lemja hjákonuna.  Slíkt fer auðvitað illa með hjákonur og því auglýsti burgeisinn eftir staðgengli til að taka við barsmíðunum.  Slík varaskeifa hlýtur að mega kallast slákona?

Hinn kínverski spurði hjá spákonu
að spúsa hans slá vildi hjákonu
svo í frillunnar stað
um staðgengil bað
og  réði sér slóttugur slákonu.

Hvernig hann vissi um fyrirhugaðar barsmíðar var óljóst af fréttinni og því blanda ég upp á eigin ábyrgð spákonu í málið en af þeim úir og grúir þarna austur frá.

Hin fréttin var frá Hong Kong og fjallaði um 107 ára gamlan mann sem þakkaði áralöngu skírlífi þennan háa aldur.  Hann var hinsvegar ekki jafn frábitinn reykingum.

“Konur þær lokka til leikja
og lífslíkur karlmanna veikja”
kvað í Hong Kong
Kínverjinn Wong:
“Nei þá fæ ég mér frekar að reykja”.

Á prentsmiðjuensku gæti þessi verið svona:

There is this guy in Hong Kong
who didn’t have sex for so long.
Says: “ It’s better to smoke”
But that must be a joke?
Forgive me folks if I'am wrong.





 


Hallarlíf

Þá er afmælisveisla Haraldar búin og gestirnir farnir að koma sér heim.  Hann var sem kunnugt er sjötugur í síðustu viku og um helgina var kátt í höllinni.  Þar var dinner og djamm en eins og allir vita þá er auðvitað mesta fjörið í svona boðum þegar allir eiga að vera háttaðir en hittast í eldhúsinu að leita að afgöngum.  Ég sé þetta alveg fyrir mér: Karl Gústav að spæla egg ofan í Sylvíu sem reynir að stappa stálinu í Camillu en hún er sem kunnugt að fara í legnámsaðgerð á næstunni.  Hún verður nú varla ólétt úr þessu þannig að það hún ætti ekki að þurfa að vera á bömmer. 

Kvíðin er Camilla greyið
þó Kalli’ hafi líklega hlegið:
En frétt var í blaði
hún fari með hraði
og fjarlægja láti’ úr sér legið.

En ein var fjarri góðu gamni í eldhúsinu.  Dorrit, sem með Ólafi neyddist til að gista á hóteli.  Hún hlýtur að hafa kvartað og er sennilega búin að hugsa upp ráð til að koma í veg fyrir svona klúður aftur.

Hún svartan var látin á lista
en ljóst gert að fengi’ að gista
ef kórónu bæri
og kalla sig færi
“The queen of Iceland - sú fyrsta”.

Það verður lítið mál fyrir þau að fá þingið til að koma þessu í gegn en gæti reyndar orðið vandræði með erfðaröðina;  Tinna eða Dalla?  Já eða bara Litla-Dorrit, ekkert legnám þar eða hvað?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband