Í helgarlok

Lítið um blogg þessa helgina enda nóg að gera við blaðalestur og það án þess að ég hafi keypt Dagblaðið, hvað þá Krónikuna.  Mér nægja Mogginn og fríblöðin.

Mogginn greindi frá því að Stórabeltisbrúin hafi verið lokuð um tíma vegna Grýlukerta.  Þetta líkar mér ekki - Grýla komin frænda okkar á Norðurlöndum og alveg hætt að hirða um óþekk íslensk börn.  Þetta hljóta að vera aukaáhrif af útrásinni miklu.  Það er allt í lagi að kaupa Magasín en við viljum ekki missa Grýlu.

Hér hafa’ allir staðfastir stutt
þá sem stöðugir braut hafa rutt
fyrir útrás til Dana
af elju og vana
en nú iðrumst, því Grýla er flutt.

Annars var nafnlaust bréf, sem Hæstarétti barst í pósti, mál málanna í byrjun helgar.   Blaðið birti glefsur úr bréfinu og pistlahöfundar og bloggarar hafa velt vöngum yfir hver sé svona lögfróður og pennafær.

Nú ýmsir við gátuna glíma
hver gaf sér til bréfskrifta tíma?
Blekbyttuflagari?
Blýantanagari?
Menn vaða í villu og svíma.

Loks endaði svo sunnudagur á Hafnarfjarðarfréttum:  Alcan gerir lokatilraun til að kaupa Hafnfirðinga með því að gangast lokst núna (!) inn á stórauknar greiðslur í bæjarsjóð.  Svo er bara skemmtileg tilviljun að það skuli eiga að kjósa um stækkun eftir nokkrar vikur.

Það er augljóst að álfurstar halda
að hér uppi á landinu kalda
allir með tölu
séu til sölu
og þori’ ekki’ í móinn að malda. 

En ég hef reyndar tröllatrú á Hafnfirðingum. 

Hættan liðin hjá

Það tókst, það tókst!  Femínistar byrjuðu og næstur var borgarstjórinn.  Hann var ekki lengi einn því brátt voru menn úr öllum stjórnmálflokkum búnir að taka upp merkið.  Biskup og prestar studdu málstaðinn og almenningur var sem einn maður. Útslagið gerðu svo bændasamtökin.  Þegar þau lögðust á sveifina og studdu málstaðinn var sigurinn í höfn.  Bravó, bravó!

Því miður var þessi víðtæka fjöldahreyfing ekki að mótmæla því að við skulum hafa verið plötuð á lista viljugra þjóða og þar með til að standa árum saman í stríðsrekstri með Bush og Blair.  Samstaðan var ekki heldur um það að vernda öræfin og hætta að virkja árnar okkar í þágu erlendra auðhringa.  Hún var ekki einusinni  um það að við skyldum leggja okkar af mörkum til að minnka útstreymi koldíoxíðs og vernda jörðina okkar. 

Nei þessi víðtæka samstaða náðist gegn þeirri mestu vá sem að okkur hefur steðjað frá stofnun lýðveldisins; klámráðstefnunni miklu.  Hingað ætluðu að koma klámmyndaframleiðendur og skemmta sér í nokkra daga og jafnvel að taka nokkrar myndir.  Úlfur, úlfur var hrópað og nú er búið að úthýsa liðinu.

Ekki hef ég mikið álit á afþreyingariðnaði eins og þeim sem hér um ræðir.  En mér þykja samt ekki góðar fréttir þegar þrýstingi af þessu tagi er beitt gegn þeim sem ekki eru "rétthugsandi" á íslenskan mælikvarða.  Hvar á að draga mörkin?  Eru allir búnir að gleyma Falun Gong?

Brún okkar léttist og brá
er bægja tókst hættunni frá:
Klámgestir teknir
í karphús og reknir
á burt, enda veruleg vá.

Sameinast þarna vor þjóð
og
þykist heilög og góð
s
tuggar við klámi
en stríðir með Sámi
-  það rennur í Bagdad blóð.

Mikið vildi ég nú að þessi frábæri samtakamáttur væri notaður aftur og betur.  Það er aldrei of seint að segja sig úr viljuga klúbbnum og svo er líka hægt að fara að standa saman um að útrýma fátækt meðal barna á Ísland.

Heiðmörk

Stundum leita menn langt yfir skammt.  Það á oft við um Reykvíkinga sem aka langar leiðir til að komast í snertingu við náttúruna þó að þeir hafi Heiðmörkina við bæjardyrnar.  Þar er gott að vera á öllum tímum árs og í alls konar veðri.  Mér er sérlega minnisstæð ferð sem ég fór þangað með finnskan gest fyrir nokkrum árum.  Ekki til að sýna henni trjágróður heldur til að leyfa henni að vera úti í roki.  Í verstu vindkviðunum tók hún upp símann (Nokia) og hringdi í börnin sín til að segja þeim frá bjráluðum vindinum, sem reyndar var nú bara hlý vorgola.

Þó að Finnanum hafi ekki þótt trjágróðurinn í Heiðmörk nógu merkilegur til að minnast á í simtalinu erum við stolt af því hvað vel hefur gengið að rækta upp svæðið og njótum þess að ganga þar í okkar eigin skógi.  Því eru margir sárir yfir þeim gróðurspjöllum sem hafa verið unnin þar uppá síðkastið.  Fjölmiðlar hafa sýnt okkur myndir af stórvirkum vinnuvélum sem tæta upp allt sem á vegi þeirra verður og er ekki laust við að sumum hafi brugðið í brún.

Lítið sig verktakar vanda
og viðkvæmum trjálundum granda.
Þeir sem svo gera
sýnast mér vera
l
ítilla sæva og sanda.

Verktakarnir höfðu þó vit á að stinga undan nokkrum trjám sem vonandi eiga eftir að enda aftur uppi í Heiðmörk með tíð og tíma.

Í gær og í dag voru svo skrýtnar fréttir í útvarpinu.  Skógræktarfélag Reykjavíkur vildi láta menn svara til saka fyrir skemmdarverkin og hugðist kæra verknaðinn til lögreglu.  En samkvæmt fréttum í kvöld kom Vilhjálmur borgarstjóri í veg fyrir það, ef ég heyrði rétt.  Hvers vegna fylgdi ekki sögunni en eitthvað er málið dularfullt.

Þeir menn skulu' af mistökum læra
og málsvörn í réttarsal færa,
sem viðkvæmum gróðri
granda í rjóðri:
Því vill ekki Vilhjálmur kæra?

Spyr sá er ekki veit.


Músagangur

Mál málanna í dag er músagangur.  Í fréttum Stöðvar tvö í gær var fréttamaður myndaður við að tína mat í körfu og spjalla um vöruverð.  Ég sá að vísu ekki þessa frétt en sá þó á netinu úrklippu þar sem engu var líkara en að tvær litlar mýs hlypu yfir gólfið fyrir aftan hann.

Og hvað með það?  Eru ekki tíska í dag að velja lífrænt og náttúrulegt?  Og hvað er náttúrulegra en smá músagangur í grænmetisdeildinni?  Við Bónushúsmæður látum nú ekki svona slá okkur út af laginu.  Þetta skrifa ég þó það sé eins víst að ég setti öldugamet í hástökki ef ég mætti mús þegar ég væri að versla í matinn.

Ég berja vil saman blús um
Bónus; hvar versla af fúsum
vilja og mætti
og varla því hætti
þó mæti þar örfáum músum.

Hinsvegar skýrðist málið seinnipartinn í dag; mýsnar voru rúllandi jarðepli og við húsmæður öndum léttar.

Við músunum hugur mér hrýs
og að horfa’ á þær alls ekki kýs
en við nánari sýn
getur vatn breyst í vín
og í veltandi kartöflur mýs.








Forsetaslagur?

Forseti Alþingis er kominn í stríð við forseta Íslands.  Allt er það út af Þróunarráði Indlands en þar þáði sá síðarnefndi sæti að þeim fyrrnefnda forspurðum.  Slíkt taldi sá fyrri víst ekki sæma forseta lýðveldisins og vildi freista þess að banna honum að sitja slíkar samkundur ef ég skil fréttirnar rétt. 

Nú veit ég ekkert í minn haus.  Ef Indverjar geta haft smá gagn af okkar manni því ekki að leyfa honum að fara þangað og láta ljós sitt skína?  Ætli þetta snúist um útselda vinnu og að forseti sameinaðs vilji að við fáum aura fyrir að lána mann þarna austureftir?  Ætti annars ekki lítil þjóð að vera stolt af því að eiga mann sem getur gefið öðrum ráð?  Varla er það verra þegar um er að ræða milljónaþjóð í örum vexti, eða hvað? 

Mér finnst þetta að minnsta kosti besta mál og efast ekki um að Indverjar vita hvað þeir eru að fara fram á.  Mér heyrist líka að forseti Íslands ætli að láta hart mæta hörðu og standa við gefin loforð og gefa Indverjum ráð eins og ekkert sé.

Hann skríður ei neina skel í
heldur skeleggur passar vel í
þróunar-ráð
og með ráðum og dáð
heldur ræður í Nýju Dehlí.

Svo má ef til vill spyrja hvort samráð okkar manna við viljugar þjóðir á sviði stríðsrekstrar hafi gefið tóninn?

Nýir vendir sópa ekki endilega best!

Einn af þessum góðu sunnudögum þegar ekkert er að frétta ef maður telur ekki með að þeir í VG í Norðvesturkjördæmi eru búnir að berja saman lista.  Hann toppar hinn aldni Jón Bjarnason alþingismaður eina ferðina enn og hann er sá eini sem hvergi virðist eiga heima.  Að minnsta kosti eru allir aðrir kenndir við einhvern stað; Tálknafjörð, Hvanneyri, Syðri-Ós og Borgarnes.  Það hefði að minnsta kosti mátt setja Jón Bjarnason, Austurvelli frekar en ekkert.

Mér datt nú í hug að hann gæti verið kominn á Grund en eins og allir vita er Alþingi í þægilegri gönguleið þaðan.  Og þá dettur mér í hug að auðvitað gætum við myndað ágætist öldungaráð með því að sækja fólk þangað og senda heim nokkra stuttbuxnastráka í staðinn. 

Listinn er kominn í hvelli
með kaptein í hárri elli.
Ég býst við á Grund
hann gisti um stund
en eigi athvarf á Austurvelli.

Annars veit ég svo sem ekkert hvað umræddur Jón er gamall en rámar í að hann hafi verið lengi í baráttunni og ég óska honum bara alls hins besta í komandi kosningabaráttu.


Showtime

Þessa dagana eru í gangi miklar sýningar á Fróni.  Virka daga er sýnt í Héraðsdómi milli níu og fimm og er víst alltaf fullt út úr dyrum.  Ekkert poppkorn er selt á staðnum en ekki mun bannað að hafa með sér nesti - í Bónuspoka ef ekki vill betur.

Kvartað hefur verið undan því að sýningin gangi hægt og það þrátt fyrir að engin auglýsingahlé séu gerð.  Leikstjórinn setti þannig ofan í við einn aðalleikanda í vikunni og sagði honum að hætta þessu rausi!  Viðkomandi varð steinhissa og steinþagnaði.

Fyrir dómara deila menn þó
öllum drepleiðist allt þetta “show”
Því auðskilið mér
alveg það er
að Ísberg sé kominn með nóg!

Að minnsta kosti er almenningur kominn með upp í háls af þessu öllu. 

Önnur og skemmtilegri sýning hefur verið haldin um helgar í sjónvarpssal.  Þar hafa helstu spámenn þjóðarinnar meðal lagahöfunda og -flytjenda sýnt listir sýnar og þar kvartar enginn þó að tryggingafélög og bankar ryðjist inn með auglýsingar í miðjum klíðum - þeir borga jú brúsann.  Lokakeppnin var í kvöld og sem fyrr er þjóðin sannfærð um að í þetta skiptið sé sigur í sjónmáli.

Nú keppnina verðum að vinna
það víst dugir alls ekkert minna.
Og til þess að meika
það, munum við Eika,
senda til frænda’ okkar Finna.

Auðvitað fylgja bestu óskir Eiríki Haukssyni sem fer með lagið um lófalesturinn til Helsinki.


Landkynning

Í næsta mánuði verður mikill menningarviðburður hérlendis.  Þá verður haldið í Reykjavík þing klámmyndaframleiðenda - nánar tiltekið þeirra sem framleiða klámefni fyrir netmiðla.  Gestir þingsins munu dvelja á Hótel Sögu, þó ekki könnuðust menn þar við að hafa leigt sal undir þingstörfin.  Skipuleggjandi þingsins sagði að hinsvegar að stefnt væri að því að fara á skíði og á hestbak og bætti því við að sjálfsgöðu ætti að taka klámmyndir í ferðinni.

Er klámhundar fara að funda
þeir fagleg vinnubrögð stunda:
Berir þeir skíða
og berbakt þeir ríða
og beinstíf þar vopnin sín munda.

Við hljótum heilshugar að fagna þessari landkynningu þvi vitað er að klámblöð fara víða og eru mikið skoðuð.  Fyrir innfædda verður það ekki slæm afsökun þeirra sem blaða andstuttir í klámblöðunum á bensínstöðvum að geta réttlætt það með því að þar eigi að vera svo ljómandi góð mynd af Eyjafjallajökli eða Skjóna frá Fremstabæ! 

Við erum svo sleip í og slyng að
slást um að bjóða þeim hingað
sem land vilja kynna
(og limina stinna)
já hér verður þreifað og þingað.

Og alveg eins og Airwaves tónlístahátíðin og Reykjavíkurmaraþon verður þetta síðan árlegur viðburður og með tíð og tíma ætti Reykjavík að geta komist á kortið sem klámborgin mikla.


Útrás

Um helgina var efnt til mikillar hátíðar í hvalveiðiskipinu Eldingu.  Þar var Silvía Nótt að undirrita samning sem hún gerir við Reykjavík Records um plötuútgáfu.  Samkvæmt þessum samningi á hún að gera þrjár plötur á næstunni sem þeir hjá RR ætla síðan að dreifa um heiminn ef ég hef skilið málið rétt.

Nú verð ég að gera játningu.  Ég er húmorslaus og hef alltaf verið.  Ég skil ekki brandara nema þeir séu með skýringum og segi enga sjálf.  Því er mér vorkunn að hafa aldrei skilið húmorinn við Silvíu blessaða.  Ég öfunda hina sem hlæja að henni á svipaðan hátt og ég öfunda á þorranum fólk sem getur borðað þorramat.

Það finnst víst ýmsum hún fyndin;
fjaðurskreytt hryggðarmyndin.
Nú farin á kreik
í fjölmiðlaleik
er stríðsmáluð konukindin.

En nú er hún semsagt komin á stúfana aftur og að því er mér skilst í þetta skiptið í boði Jakobs Frímanns Magnússonar.  Hann er sagður hafa vit á bæði peningum og tónlist og ef hann telur að Silvía sé allra milljónanna virði sem hún fékk við undirritun samningsins þá situr ekki á mér að efast um það.  Miklu heldur á ég að gleðjast yfir þessari nýjustu útrás okkar manna og venja mig við að svara spurningum útlendinga um þessa gyðju næst þegar ég bregð mér út fyrir landsteinana.  (Ég hef verið spurð um Björk: "Is she family?" út af eftirnafninu sem er eins hjá báðum þó við kennum okkur við sitt hvorn Guðmundinn).

Ég veit að fyrri tilraun Silvíu til að sigra heiminn tókst ekki sem skyldi en lengi skal manninn reyna.  Hún byrjar samt örugglega ekki í Aþenu þetta árið?  Og ef illa fer má skella skuldinni á andstæðinga hvalveiða, ekki síst eftir blaðamannafundinn í hvalabátnum.  En það er óþarfi að hafa áhyggjur, þetta verður stórsigur, ekki spurning!

Hún er ferlega lítið feimin
og á fyrri ófarir gleymin.
Nú sofið get rótt
því Sylvía Nótt
sigrar að endingu heiminn.

Og þá er bara eftir að vitna í gyðjuna sjálfa:  "Til hamingju Ísland".

 


Kosningaskrifstofur

Það er merkilegt að nú þegar umboð núverandi ríkisstjórnar er um það bil að renna út þá breytast öll ráðuneytin í kosningaskrifstofur.  Á nokkurra daga fresti fáum við fréttir af stórfelldum framkvæmdum, dýrum og miklum sem ráðast á í fljótlega og ljúka - nei ekki fyrir kosningar, heldur á næstu áratugum! 

Nýjustu útspilin eru frá samgönguráðherra í gær, sem lofar beinum og breiðum vegum nánast á heimsenda og að bora göng í öll þau fjöll sem á vegi hans verða.  Frábært og tími til kominn.  Þeir flögguðu að minnsta kosti í Bolungavík í dag.

Nú Sturla brátt stofnbrautir ryður
og í staðinn um atkvæði biður
Hann ólmur vill bora,
brátt fer að vora
og hver Bolvíkingur hann styður.

Framsóknarformaðurinn setti líka undir sig hausinn í hlutverki orkumálaráðherra og kynnti virkjanastefnu sem gerir, að því er mér sýnist, ráð fyrir að við verðum álversþjóð um alla framtíð og útvegum ódýra orku og land til mengunar.  En með góðum vilja má sjálfsagt kalla þetta framsýni í þágu atvinnuveganna?

“Nú virkjanir munum við bjóða brátt
ef B-listann kjósið” nú hljóða hátt
framsóknarmenn
sem frumlegir enn

þruglið kalla svo þjóðarsátt.










« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband