Af Sunnlendingum!

Í fréttum útvarpsins í morgun greindi frá því að Selfyssingar hefðu heyrt skothvelli um helgina og orðið hræddir.  Útvarpið fór reyndar ekki mörgum orðum um atburðarásina en svo virtist sem borðalagt yfirvald Árnesinga hafi ekki haft neinar vöflur á heldur kallað samstundis eftir aðstoð Sérsveitar Ríkislögreglustjóra.  Þeir komu, með alvæpni, trúi ég, og var bent á hús þaðan sem skothvellirnir áttu að koma.  Þeir fóru inn en þar "var allt með felldu" að sögn útvarpsins. Engin skýring fannst á skothvellunum og telur lögreglan að sennilega hafi verið um flugeldaskot að ræða.

Sérsveit um helgina fór á flakk
og fyrir austan þar sögðu “takk”
skíthræddir menn
sem skjálfa þar enn
því skoteldur síðan í fyrra sprakk!

Já margt er skrýtið í kýrhausnum, ekki síst á Selfossi en þar býr einmitt landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknar.  Hann var spurður sem slíkur um könnun Fréttablaðsins sem birt var í morgun en þar fær flokkur hans ekki nema 3 - 4% atkvæða og heila tvo þingmenn.  Hann taldi lítið mark takandi á könnuninni og hana óvísindalega unna ef ég hef skilið hann rétt.

En mín kenning er sú að ráðherra sjái að sjálfsögðu eftir þingsætinu og ráðherradómi sem hefur haft í för með sér ýmis fríðindi fyrir hann:

Fylgið hjá ráðherra rýrnar
hann ráðvilltur hleypir í brýrnar.
Er fótanna’ að missa
og fær ekki’ að kyssa
fallegu íslensku kýrnar.

Nú er að vita hvort stjórnaandstaðan hafi á að skipa manni með þessar hneigðir ef þeir skyldu þurfa að manna embættið?



Sjúkrasögur

Þrátt fyrir titilinn á þessi pistill ekki að fjalla um heilsufar mitt.  Um það er ekkert að segja og þó svo væri er ég ekki viss um að þetta væri rétti vettvangurinn til að koma sjúkrasögum á framfæri.  Mér leiðast nú eiginlega flestallar sjúkrasögur nema þegar Auður Haralds skrifaði langa og fyndna bók um gallblöðruna í sjálfri sér fyrir margt löngu.  Nú er dómsmálaráðherra á sjúkrahúsi með samfallið lunga og er á bloggsíðu sinni kominn langt á veg með að toppa Auði - í lengd en ekki fyndni. 

Nú er auðvitað ekkert fyndið við samfallið lunga og ráðherrann á samúð mína alla.  Ég gat þó ekki annað en leitt hugann að því hve gott það var að það var lungað en ekki eitthvað annað líffæri sem gaf sig:

Samföllnu lýsir hann lunga
af lipurð og alvöruþunga.
Gott að vel yfir mitti
veikin hann hitti
- það er verra að blogga um punga!

Ætli megi ekki segja að lungað sé nokkuð bloggvænt líffæri?


Sápuópera

Í Ameríku fyrir vestan gerðist sá hörmulegi atburður í liðinni viku að Anne Nicole Smith andaðist, að því er talið er af langvarandi ofnotkun lyfja. Hún varð aðeins 39 ára gömul.

Þar með urðu þáttaskil í mikilli sápuóperu þar sem þessi kona hefur leikið aðalhlutverkið.  Hún varð fyrst fræg fyrir nokkrum árum þegar hún gekk að eiga milljarðamæring á grafarbakkanum og eftir lát hans hefur hún staðið í stappi við börn hans um seðlana sem kallinn skildi eftir sig.

Annar þáttur í sápunni var leikinn á síðasta ári þegar hún ól stúlkubarn, nánar tiltekið í september.  Að minnsta kosti þrír menn hafa krafist þess að vera lýstir feður að barninu og er því ljóst að ekkert hefur verið til sparað.  Lyktir þess máls voru ekki ljósar þegar móðirin lést í vikunni.

Nú eru komnar fram fréttir um að ef til vill hafi Anna sáluga verið klárari en háraliturinn gaf til kynna.  Sú saga hefur nefninlega komist á kreik að hún hafi nota sæði úr fyrrnefndum látnum milljarðamæringi þegar hún efndi í krakkann.  Þar skaut hún öllum ref fyrir rass og það er eiginlega synd að hún skuli ekki fá að njóta þess að spila út þessu spili sjálf.

Við erfingja barðist í bræði
vildi búa sér þessa heims gæði
og sem baráttutól
barnið hún ól
úr beinfrosnu öldungasæði.

Að öllu gamni slepptu þá er bara að vona að eitthvað gott fólk taki sig að ungabarninu og veiti því ást og umhyggju framar öðru.

Alltaf í boltanum?

Ég?  Nei.  Ég reyndi að spila handbolta sem stelpa en reglurnar um tæklingar voru of flóknar - ég var stór og sterk og gat náð boltanum af hvaða písl sem var en skildi aldrei af hverju það mátti stundum og stundum ekki.  Ég skil það ekki enn og það skýrir hve auðvelt ég átti að láta á móti mér allt áhorf þarna um daginn þegar strákarnir okkar voru að keppa niður í Þýskalandi.  Fótbolta hef ég aldrei spilað enda ekki gert ráð fyrir að stelpur hefðu annað hlutverk í þeirri íþrótt þegar ég var að alast upp en að hvetja strákana.

En nú erum við stelpurnar loksins komnar með áhuga á fótbolta.  Fyrir dyrum stendur nefninlega formannskjör í KSÍ og meðal frambjóðenda er Halla Gunnarsdóttir:  Kona, ung, hefur spilað fótbolta og hefur einlægan áhuga á að vinna hreyfingunni allt hvað hún getur.

Mér fannst þetta upplagt tækifæri fyrir íþróttahreyfinguna að brjóta blað.  Því varð ég fyrir miklum vonbrigðum í morgun þegar útvarpið greindi frá því að aðspurðir hefðu einungis þrír af kjörnum fulltrúum á þingið sagst ætla að kjósa Höllu.  Takið eftir þrír - ég veit ekki af hvað mörgum fulltrúum, en þeir voru að minnsta kosti einhverjir tugir.

Auðvitað.  Hvað er annað nýtt í heiminum í dag?  Karlmaður tekinn fram fyrir konu, getur það verið?


Um sætið nú kona vill keppa
en karl mun það auðvitað hreppa.
Þetta fer allt að vonum
enda fullljóst að konum
öðrum hnöppum lætur að hneppa.

Hún getur svo bara boðið sig fram þegar kemur að því að velja í nefnd fyrir kökubasarinn!




Sleggjudómar

Aldrei hefur mér dottið í hug að það sé gaman að vera formaður í stjórnmálaflokki.  Margra ára fýlusvipur Halldórs Ásgrímssonar hefur sýnt þjóðinni að slíkt er hið mesta leiðindamál.  Og þó að Davíð ætti góða spretti var hann samt mest pirraður svona seinni árin.

Guðjón Arnar formaður Frjálslyndra hefur ekki virst teljandi leiður - enda flokkurinn lítill og rekinn úr forstofuherbergi heima hjá Sverri Hermannssyni til skamms tíma.  En nú hefur öll heimsins mæða dunið yfir hann nýverið.  Fyrst þurfti hann að berjast við Margréti með kjafti og klóm dögum eða vikum saman og marði nauman sigur á vel skipulögðu flokksþingi á Loftleiðum eins og allir muna.  Þegar hann er svo um það bil að rétta úr kútnum dynur yfir hann annað og verra ólán:  Kristinn Gunnarsson fær augastað á flokknum!  Þetta getur þýtt langa og stranga baráttu og aumingja Guðjón var nánast brjóstumkennanlegur í kvöld þegar hann sagði að vissulega væru nýjir félagar alltaf velkomnir - líka Kristinn.  Innra með sér trúi ég að hann hafi ólgað og skolfið og reynt að hugsa upp varnarleiki.  En hann á ekki séns í Kidda sleggju:

Kristinn úr Framsókn er farinn
og Frjálslyndra heillar hann skarinn.
Þó grimmur til varnar
Guðjón sé Arnar
hann með sleggjunni brátt verður barinn.

Þetta er allt hið besta mál og vonandi að Frjálslyndir neyðist til að beina kröftunum inn á við á næstunni og láti útlendingana í friði við að byggja handa okkur hús og beinhreinsa þorska!

 


Af geimförum

Við Íslendingar höfum árum saman hælt okkur af því að eiga geimfara.  Vestur-Íslendingur, mig minnir að hann heiti Bjarni, var sendur út í geim hér fyrir nokkrum árum; svona eiginlega áður en alvöru útrás komst í tísku, og þá urðum við á augabragði geimferðaþjóð og allir vissu heilan helling um geimfara.

Þar með fylgdi sú vitneskja að geimfarar væru ævinlega valdir úr stórum hópi umsækjenda.  Þeir væru allir með eitt eða fleiri doktorspróf í raungreinum og að allir hefðu þeir þurft að standast erfið sálfræðipróf áður en þeir komust í þennan flokk útvalinna.

Þessi glansmynd brotnaði í mola í gær þegar tveir kvenkyns geimfarar börðust upp á líf og dauða um þriðja geimfarann af gagnstæðu kyni.  Aðalleikarinn í þessu ameríska drama; Lísa María skrapp af stað til að gera upp sakir við keppinautinn sem ég náði nú ekki nafninu á.  Hún ók 1500 km. án þess að stoppa og samkvæmt fréttum gerði hún þarfir sínar í bleiu á leiðinni til að tapa ekki tíma.

Í geimnum er gengdarlaust fjör
og girndin er oft með í för.
En fátt er þó kosta
fólk kvelst þar af losta
en kemst ekki’ úr nokkurri spjör.

Því var það að Lísa hún lagði
í langferð og eins og hún sagði:
“Með bleiu í bíl
nú bruna með stíl
og bana skal kerlingarflagði”

Nú er Lísa komin bak við lás og slá en sem betur fer er fangabúningur nú ekki eins erfiður að komast úr eins og geimferðabúningur - svona ef girndin grípur hana að nýju!


Lestur á lönguföstu.

Þá er fastan hafin að minnsta kosti samkvæmt útvarpinu.  Ég taldi hana nú eiga að hefjast í kringum öskudag en fyrst útvarpið byrjaði að lesa Passíusálmana í gærkvöldi hlýtur fastan að vera byrjuð?  Þetta árið les Gunnar Stefánsson sálmana og fyrsti lestur lofar góðu.  Skyldu annars fleiri en ég hlusta?  Það væri gaman að vita?

Hollt er sem fyrrum að fasta
og feta’ ekki veginn lasta
en læra að meta,
lesa og éta
Passíusálma og pasta.

Þetta hljómar nú betur en satt er.  Ég ætla út að borða á morgun og það verða hvorki sálmar eða pasta á boðstólum, svo mikið er víst. 

Eins og Passíusálmar eru lesnir árlega þá er ný bók um Harry Potter líka lesin árlega og það af öllu fleira fólki en sálmarnir.  Nú bíða lesendur í ofvæni eftir nýrri bók sem mun verða sú síðasta.  Sá kvittur er á kreiki að sú bók endi sorglega fyrir okkur aðdáendur galdrastráksins og jafnvel ekki ólíkt sálmum Hallgríms. 

Fyrir galdrastrák útlit ei gott er,
menn geta sér til um það plott, er
Rowling hún spinnur:
Hvort Voldemort vinnur
og vegi þá Harry Potter?

En það er skiljanlegt að höfundur vilji ekki bera ábyrgð á að drengurinn eldist og fari jafnvel að vinna við verðbréfamiðlun eða raunveruleikasjónvarp.  Það gæti endað illa!


Samsæriskenningar

Ekki var ég fyrr farin að hlakka til Kjalvegar hins nýja þegar Mogginn kom mér niðrá jörðina aftur.  Ég hlustaði nefninlega á lestur úr leiðaranum í morgun þar sem sterklega var varað við að eyðileggja ósnortin víðerni á Kili með vegagerð.  Ég hef nú svo oft keyrt Kjöl að ég veit að þar er vegur nú þegar og mikið keyrður allt árið um kring.  Hví skyldu víðernin líða þó hann yrði malbikaður?

Fyrst datt mér í hug að ástæðan fyrir andstöðu Moggans gæti verið sú að Bónusbóndinn Jóhannes situr í stjórn Norðurvegar en það er nú ef til vill svolítið langsótt? 

Um vegagerð ritstjórnin röfla hlaut
og ruddist í flagi eins og naut.
Er ástæðan eina
hún ekki vill neina
uppbyggða, fjölfarna Bónusbraut?


Nei, varla.  En ef við hugsum aðeins lengra þá liggur næst við að spyrja hverjir myndu tapa á Kjalvegi?  Jú, auðvitað Spölur, sem er fyrirtækið sem á og rekur Hvalfjarðargöng.  Ef fólk hættir að fara göngin þarf ekki að fara í grafgötur með það að þeir eiga eftir að tapa nokkrum þúsundköllum á okkur sem förum bara stystu leið og ekki orð um það meir.

Til varnar víðáttu Kjalar
um vegagerð ritstjórnin malar
Og vill ekki vegi
en varkár ég segi:
Er ástæðan afkoma Spalar?

Nei sennilega er þetta líka heldur langsótt.  Hugsanlega er ritstjórn Moggans bara orðin umhverfisvæn í alvöru og meinar það sem hún segir: að Kjalvegur muni eyðilegga lítt snortin víðerni milli jökla!


Kjölur

Ég sofnaði undir útvarpsfréttum um kvöldmatarleytið og vaknaði upp á Kili!  Útvarpið var nefninlega að segja frá vegi sem  einkafyrirtæki nokkurt ætlar að leggja um Kjöl.  Ef af verður þá heyrðist mér að leiðin Rvík - Ak. styttist um 50 km. sem ég verð nú að segja að mér finnst ekki muna nógu miklu til að ég sé sérlega æst yfir framkvæmdinni.  En auðvitað eiga þessir vegagerðarmenn aðdáun mína og ég á örugglega eftir að fara þennan veg ef og þegar hann kemur.  Best er auðvitað að þarna geta þungaflutningarnir farið og hætt að eyðileggja vegi í byggð.

Styttingu tæpast ég trega’ en verð
að tala um stórmerkilega ferð
sem hefja nú senn
þeir
huguðu menn
sem á Kili sér voga í vegagerð. 

Svo var tíundað í fréttinni að þeir hjá Norðurvegi (sem er nafnið á fyrirtækinu) ætluðu sjálfir að sjá um snjómokstur sem ekki yrði mikið vandamál og að líklega mætti telja á fingrum annarar handar þau skipti sem vegurinn yrði ófær ár hvert.

Rifjast þá upp röksemdafærsla þeirra sem börðust fyrir lagningu Héðinsfjarðarganga.  Þar var Lágheiðin helsti farartálminn og sagt var að gjörsamlega ómögulegt væri að halda henni opinni þegar snjóar og þvi yrði að byggja göng.  Nú veit ég að Lágheiði er snjóakista en það eru örugglega svæði á Kili sem eru það líka og hversvegna í ósköpunum var ekki talað við Norðavegarmenn um snjómokstur áður en ráðist var í að kasta 5-6 milljörðum í gat í fjöllin?

Snjómokstur allaf er árans böl
þó eigum á fínustu tækjum völ:
En hver var sem taldi
að tæknin ei valdi
Lágheiði en fari létt með Kjöl?

Gleymum svo ekki Reynistaðabræðrum og örlögum þeirra!

 


Af hæstaréttardómum

Þegar ég náði í Moggann minn í morgun hrökk ég í kút.  Það átti ég sameiginlegt með fjölda fólks eða nánar tiltekið þeim hluta þjóðarinnar sem ennþá er áskrifandi að Morgunblaðinu.  Forsíðan var prýdd svarthvítum myndum af fimm skuggalegum mönnum og yfirskrift fréttarinnar var:  Milduðu dóminn.  Síðan var sagt frá barnaníðingsmáli sem Hæstiréttur Íslands hafði verið að dæma í og mildað dóm undirréttar þannig að sá sem níðingsverkið vann fær átján mánaða dóm í stað tveggja ára.

Nú þarf að fara sér hægt.  Níðingsverk gegn börnum eru einn sá versti glæpur sem hægt er að drýgja og enginn mælir slíku athæfi bót.  En því miður er þetta ekki eina verk sinnar tegundar sem komið hefur til kasta Hæstaréttar og ekki eina tilfellið um að rétturinn hafi mildað dóma héraðsdóms í slíkum málum.  Sem dæmi má nefna að þann 6. apríl í fyrra mildaði Hæstiréttur dóm héraðsdóms yfir manni sem hafði framið kynferðisbrot gegn þremur stúlkum, úr tveimur árum í eitt ár.  Reyndar er ekki getið um aldur stúlknanna í þeirri frétt en það að þær eru kallaðar stúlkur, ekki konur, gefur til kynna að þær hafi verið undir lögaldri.

Nú man ég ekki nákvæmlega hvernig Morgunblaðið tók á dómi héraðsdóms í apríl í fyrra en ég er nærri viss um að ekki voru birtar svarthvítar ljósmyndir af Hæstaréttardómurum á forsíðu.  Slíkar myndbirtingar á forsíðu virðast mér hingað til að hafi einkum verið notaðar þegar um hörmulegar slysfarir er að ræða og viðkomandi einstaklingar eru látnir.

Hvað er á seyði?  Hvað veldur?  Það var umræðuefnið á kaffistofum landsins í dag.  Og alþýðuskýringin lætur ekki á sér standa hjá fólki sem veit að "ekki lýgur Mogginn"

Nú dómurum hent út á haug
hefur Mogginn sem aldregi laug.
Er verið að glefsa
í greyin og refsa
þeim sömu og sýknuðu Baug?

Eða er það tilviljun að þrír af fimm mönnum á forsíðu Moggans sátu í Hæstarétti þegar Baugsmenn voru sýknaðir þann 25. janúar síðastliðinn?  Að minnsta kosti er gott að besti vinur aðal, Ólafur Börkur var ekki með í dag og heldur ekki sá innmúraði og innvígði Jón Steinar.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Limruleikur

Höfundur

Jóna Guðmundsdóttir
Jóna Guðmundsdóttir
Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.8.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband