2.2.2007 | 00:05
Handbolti og vegagerð
Köttur úti í mýri, setti' upp á sig stýri, úti er ævintýri! Þetta fer bara versnandi með hverjum deginum og nú er handboltalandsliðið tilbúið að taka upp nýtt heiti ,sem þeir fá að láni frá sigurvegara tónlistarverðlaunanna frá því í gærkvöldi: Lay Low.
Búnir að tapa fyrir Rússum eiga þeir nú ekkert eftir nema að tapa fyrir Spánverjum. Og allt þetta án þess að ég hafi horft á strákana okkar - svo ekki er hægt að kenna mér um.
Ég heyrði hinsvegar einhvern furða sig á að menntamálaráðherra hefði tíma til að sitja á pöllum niðri í Þýskalandi dag eftir dag. Ég vil nú meina að hún eigi orlofsrétt eins og aðrir (og lifeyrisrétt umfram aðra ef út í það er farið) og þetta er ekki verri máti en hver annar að eyða fríinu. En nú getur hún farið að koma heim og vasast í menntamálum að nýju.
Það er heppni að frúin á frí
sem hún fórnar að sjálfsögðu í
að húka á pöllum
með hrópum og köllum
- og er færari en flestar í því.
Í fréttunum í gær kom í ljós að í Álafosskvosinni er mikið að gerast. Þar eru íbúar að mótmæla vegalagningu og fara þekkta alþýðuleið; nefninlega að setjast niður fyrir framan vinnuvélarnar. Þar mátti sjá fremsta í flokki á skurðarbakka Bryndísi Schram sem tók sig vel út í bróderuðum ljósbrúnum rúskinnsfrakka. Hún var samt nokkuð beygð að sjá en mér skilst þó að áfangasigur hafi unnist - vegagerðartækin hafi verið kölluð burtu a.m.k. í bili.
Það er kona á bakkanum bitur,
brúnn er á frakkanum litur.
Vit, ekki vöðvar
veghefil stöðvar
sem verklaus í slakkanum situr.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.2.2007 | 08:02
Óráð
Oft er Kastljós ríkissjónvarpsins fyndnari en nokkur Spaugstofuþáttur. Mér þótti til að mynda ótrúlega hlægilegt innslag sem var um Austurstræti dag nokkurn fyrr í vikunni. Þar var Ómar Ragnarsson að viðra hugmyndir sínar um að gera götuna að tvístefnuakstursgötu til að fólk gæti aftur farið að stunda "rúntinn" eins og það gerði í upphafi bílamenningar í Reykjavík.
Til að kóróna delluna var síðan hóað í borgarstjórann til að segja sitt álit. Hann tók hugmyndinni ekki illa og sagðist eiga góðar minningar frá umræddum rúnti - frá því rétt eftir 1960!
Hvað kemur næst - endurvakning æpandi blaðasala? Þeir hafa nú vafalaust verið fastur hluti af þessu svæði um 1960?
Þeir biðja um bíla á stræti
og blaðasala með læti.
Og fljótlega sjá
í fortíðarþrá;
ungmey í aftursæti.
Góðar minningar eru einfaldlega og verða minningar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.1.2007 | 22:38
Danskur sigur!
Danir höfðu það. Sorglegt en satt. Ég horfði auðvitað ekki á leikinn en heyri að hann hafi verið spennandi og jafn. En Danir höfðu það samt. Sennilega voru þeir bara betri eða heppnari eða hvorutveggja - hvað veit ég sem ekki sá leikinn? Ég heyrði hinsvegar í útvarpinu að Snorri Steinn hefði verið maður leiksins:
Sem fyrrum er þjóðinni þorri
þungur í skauti, en vorri
lyfti þó lund
í leiknum um stund
hinn fimi og frábæri Snorri.
Annars gleymist næstum ofsagróði bankanna í öllum þessum handboltaspenningi. 85 milljarðar hér og 38 milljarðar þar. Og heildareignir bankanna í lok liðins árs jafngilda áttfaldri þjóðarframleiðslu ef ég hef skilið málið rétt? Er þá kannski borð fyrir báru hjá þeim og möguleiki á að þeir lækki þjónustugjöldin?
Samstarfskona mín hringdi í bankann sinn um daginn til að spyrjast fyrir um færslu sem hún mundi ekki eftir. Þjónustufulltrúinn fletti fyrir hana upp á færslunni og þá rifjaðist málið upp og hún þakkaði fyrir og kvaddi. Næst þegar hún fór inn í heimabankann sinn var nýr frádráttur: Mínus 100 kr. fyrir samtal við þjónustufulltrúa! Margt smátt gerir eitt stórt og þannig hjálpum við þeim að safna milljörðum:
Bankarnir safna í sjóð
og sögð er afkoman góð:
Við aðstoðum þá
því óhemju há
eru þjónustugjöldin hjá þjóð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2007 | 22:50
Heimilslaus!
Enn gerast stórmerki og undur
enn slitnar friður í sundur
Magga var mædd,
mál voru rædd;
það var mánudagskópavogsfundur.
Nei ég er að hugsa um geirfuglinn. Það hefur komið í ljós að náttúrugripasafnið á Hlemmi er engan veginn öruggur staður fyrir slíkan dýrgrip og nú er búið að pakka honum niður og setja í geymslu. Vonandi að honum verði ekki hent í misgripum í næstu tiltekt svipað og dótinu sem var fleygt úr frystigeymslunni á dögunum.
Það mætti nú athuga hvort ekki væri ráð að setja sæmilega stórt náttúrugripasafn í forgang fljótlega. Annað eins splæsum við Íslendingar í þegar vel liggur á okkur? Eða eigum við bara að láta geymslurnar duga?
Náttúrugripi má geyma
í geymslum og láta sig dreyma
um stofnun á safni
sem stæði undir nafni:
Þar geirfuglinn gæti átt heima!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.1.2007 | 23:46
Tapleikur
Ég horfði sem betur fer ekki á handboltaleik dagsins og því ekki hægt að kenna mér um slakt gengi íslenska liðsins. Ég hvet þó menn til að halda áfram að styðja liðið þó á móti blási:
Strákarnir sterku og frísku
stóðu' ekkert í hinum þýsku.
Hvetja okkar menn
við munum samt enn
þó að tapleikir komist í tísku!
Áfram Ísland!
Bloggar | Breytt 29.1.2007 kl. 00:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.1.2007 | 23:50
Hættur að iðrast
"Ég vona að ég hafi iðrast nóg" segir Árni Johnsen í viðtali við Blaðið í dag. Það hlýtur að þýða að hann sé hættur að iðrast? Eða eru tæknileg iðrunarmistök í gangi?
Árni var skemmtilega kokhraustur og ánægður með sjálfan sig í viðtalinu og virtist nokkuð viss um að hans biði ráðherratign að loknum kosningum þó hann segði það ekki beint út. Það væri auðvitað vel viðeigandi að hann yrði kirkjumálaráðherra, þó ekki væri nema fyrir sérstakan nýjan skilning á iðrunarhugtakinu.
Allt nú í hag honum gengur
og hann segist ágætisdrengur.
Brattur hann ber
á brjóst sér og er
alls ekki iðrandi lengur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2007 | 23:56
Útsölulok
Nú er þar komið sögu að útsölur borgarinnar eru að verða búnar. Þá eru jólin hjá kaupafíklum eins og þeirri sem þetta ritar. Ég segi stundum að ég eigi lögheimili á Internetinu og sumarbústað í Kringlunni og í Kringlunni gengur lífið eins og allir vita út á Góð Kaup.
Góð Kaup á útsölu geta verið allt frá því að kaupa samkvæmiskjól sem aldrei á eftir að sjá annað samkvæmi heldur en mig og spegilinn og upp í það að kaupa gallabuxur sem ég nota daglega í tvö ár og bíð á brókinni (= nærbuxur á norðlensku) fyrir framan þurrkarann meðan þær þorna nóg til að hægt sé að fara í þær.
Limra dagsins er um Steingerði sem þyrfti að komast á útsölu:
Hennar Steingerðar kröpp eru kjör;
á kroppinn hún á ekki spjör:
Hún sprangar um ber,
fyrir bóndann það er
stöðugt og standandi fjör.
Bloggar | Breytt 27.1.2007 kl. 09:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2007 | 23:45
Kastljós?
Ekki var ég með Kastljósið í huga þegar ég harmaði OH-væðingu RÚV í síðasta bloggi. Mín vegna mætti selja það eða gefa. Að minnsta kosti finnst mér það oft vera þunnur þrettándi.
Það er þó reyndar varla við Kastljósstjórnendur að sakast þó gamlingjarnir sem ég hélt að ætluðu að bjóða fram saman til Alþingis í sátt og samlyndi séu farnir að rífast í beinni. Þetta styður bara þá kenningu mína að lífsskoðanir fólks fari ekkert frekar fara saman þó fólk eigi nokkurnvegin jafnmörg ár að baki. Mér sýnist þetta framboðsvesen vera dæmt til að misheppnast en skal svo sem éta það ofan í mig ef sættir nást og þeir rúlla upp kosningunum í vor.
Núna er fátt eitt að frétta
og fréttnæmast helst er þetta:
Gamlingjar glíma
og gefa sér tíma
úr geðvonskukirnum að skvetta.
Reyndar voru þeir nú ekki sérlega geðvondir - það er nú orðum aukið, en það var mikill pirringur í gangi og enginn virtist vita almennilega um hvað málið snerist.
Kastljósinu var annars beint að óhefðbundnum lækningum í gær og í dag. Í gær var rætt við landsfræga Jónínu Ben sem býður fólki upp á stólpípuferðir til Póllands og lækni sem reyndi þolinmóður að útskýra fyrir henni að það væri óþarfi að skola ristilinn á þennan hátt. Líka var sýnd afeitrun gegnum fætur - fótabað sem á að hreinsa eiturefni úr líkamanum! Í dag var svo gerð tilraun í þættinum þar sem kona var fengin til að fara í fótabað og læknir reyndi að útskýra fyrir hlustendum að brúni liturinn sem kom á vatnið væri ekki járn að skiljast út í gegnum iljarnar á henni. Nú kvíða áhorfendur föstudagskastljósinu...
Menn lappirnar litu á einni
ljómandi verða og hreinni.
En fólk er að vona
að fótabaðskona
fái ekki stólpípu í beinni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.1.2007 | 22:02
Enginn veit hvað átt hefur ...
Það vekur mér hinsvegar furðu hvað margir eru rólegir yfir þessu? Því er engin undirskrifta-söfnun í gangi? Hvar eru hollvinirnir? Í lesendadálkum dagblaðanna sýnist mér að fólk almennt hafi meiri áhyggjur af þættinum Íslandi í býtið á Stöð 2 og því hvað verði um Sirrý!
Mér sýnist það svolítið skrítið
hve syrgja menn útvarpið lítið:
Ég heyri ekki neitt;
fólk harmar það eitt
að hætta mun Sirrý í bítið.
Sem minnir nú á ágætt innslag um þá góðu konu í síðasta áramótaskaupi.
Ég las í blaði í gær að ég væri forpokuð og hefði ekki áhuga á því að verið væri að gera eitthvað nýtt og spennandi! Þetta var afmælisbarn helgarinnar sem kom með samheiti yfir okkur sem í samtölum manna í milli setjum spurningamerki við veislur sem kosta á annað hundrað milljónir. Já, þá verð ég víst að sitja undir þeim stimpli og held ég sé þar í góðum félagsskap með alþýðu þessa lands og þeim sem sköpuðu verðmætin sem síðan voru færð gæðingum á silfurfati undir nafni einka- eða hlutafélagavæðingar.
Er ég þá líka forpokuð af því mér finnst plebbalegt þegar nýríkir Rússar láta gera demantskreytt farsímahulstur handa ástkonum sínum og eiginkonum? Eða þegar Rússarnir kaupa íþróttafélög í fjarlægum löndum til að geta boðið vinum sínum í góð sæti á kappleikjum? Hver er munurinn á því og sérinnfluttum flygli fyrir glamrandi trúbadúr?
Harðorður höfðinginn kvað
í hófstilltu spjalli við blað:
Þó forpokað dót
mæli fjörinu í mót
mér er svei mér þá sama um það
Já, auðvitað er öllum sama.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.1.2007 | 22:44
Vonbrigði
Þrátt fyrir að hafa aldrei í lífinu leitt hugann að því í alvöru að kjósa Frjálslynda flokkinn varð ég fyrir nokkrum vonbrigðum í dag þegar Margrét Sverrisdóttir lýsti því yfir að hún ætlaði ekki að bjóða sig frám á móti Guðjóni á flokksþinginu. Mér hefði þótt hún svo frambærilegur formaður og ég hef það eftir kunnugum að hún sé bæði klár og víðsýn.
Þessvegna vona ég líka að hún sé búin að hugsa nokkra leiki fram í tímann og að með því að vera "bara" varaformaður þá reikni hún með að ná fram fleiri baráttumálum en hefði hún farið í formanninn. En hvað veit ég svo sem - ef ég gæti hugsað á þessum nótum væri ég kannski í pólitíkinni líka? Ég vona minnsta kosti að hún sé ekki að draga sig í hlé af einhverri kvenlegri hæversku eins og við stelpurnar gerum svo alltof oft:
Við oft erum mestar í orði
en ekki jafn góðar á borði:
Við strákana styðjum
um þeirra stuðning svo biðjum
þó við stöndum þeim alveg á sporði.
Annars var það í fréttum í dag að aldraðir og öryrkjar hafa komið sér saman um að bjóða fram í komandi alþingiskosningum. Vonandi kemur eitthvað gott út úr því. Reyndar hef ég nú þá skoðun að eitthvað meira en aldurinn þurfi að sameina fólk í framboði - lífsskoðanir mínar fara til dæmis ekki alveg saman við skoðanir jafnaldra minna í Sjálfstæðisflokknum og gera það varla neitt frekar þó við bætum við okkur nokkrum árum eða áratugum? En þetta er ekki verra en hvað annað og ég gef þessu séns....
Nú öldungar saman í sveit
safnast og strengja þar heit
að efla í dag
aldraðra hag:
Það er ljóst að margt verra ég veit!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar