25.10.2008 | 23:42
Fimmti flokkur KR í hættu?
Ég var að lesa viðtal Agnesar Bragadóttur við Björgólf eldri í Sunnudagsmogganum. Honum er þar stillt upp sem fórnarlambi sem á enga sök á málum. Samt eruð það Icesave-reikningarnir sem möluðu honum gull um tíma sem munu binda okkur á skuldaklafa um ófyrirsjáanlega framtíð.
Í þessu viðtali nefnir hann að hugsanlega geti hann í framtíðinni unnið við að þjálfa fimmta flokk KR? Takk fyrir - ætli börnin séu þjálfaralaus? Og því skyldu foreldrar í Vesturbænum treysta þessum manni fyrir því dýrmætasta sem þeir eiga; börnunum sínum? Ekki stóð hann sig svo vel í því að sjá um aurana okkar eða reka skipafélag.
Ég var hneyksluð á frekum og frökkum
fjárglæframanni sem þökkum
við gjaldþrot og nauð
en galvaskur bauð
að hann fótbolta kennt gæti krökkum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.10.2008 | 23:53
Hetjur og harðjaxlar
Huggulegar myndir á netmiðlum kvöldsins af Hreiðari bankastjóra að kveðja Kaupþingsmenn. Þeir vita fæstir enn hvort þeir haldi vinnunni en hann veit að hann er tryggur um aldur og ævi með eignir þær og fjármuni sem hann er búinn að sanka að sér í okkar boði síðustu árin.
Hann virtist hraustur og hress
Hreiðar og laus við allt stress:
Nú aurana telur,
fjármuni felur
og við Frónið hann segja mun bless.
Það er að minnsta kosti mín spá að hann og fleiri feti í fótspor Bjarna Ármannssonar, komi sér með aurana úr landi og leggi fyrir sig krosssaum eða annað föndur í landi þar sem börnin fá skólagöngu sem hæfir og læknisþjónusta og þessháttar er í góðu lagi. Í gær greindi Mogginn frá því að nú fá langveikir á Íslandi bara afgreidd lyf til eins mánaðar í einu - í stað þriggja áður!
Það kemur ekki til greina að persónugera þann vanda sem við er að fást í þeim þremur mönnum sem sitja í stjórn Seðlabankans" sagði hann Geir í kvöld í Kastljósi en meinti; Sorry krakkar; ég þori ekki í Davíð ennþá.
Óhæfur reynist ráðherrann
sem rekur ekki þann undirmann
hvers tími er búinn
trausti er rúinn
og alþýða tekin að hata hann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2008 | 23:24
Bréf og þref
Meðan forsætisráðherra tvístígur og tafsar eitthvað um það að hann viti ekki hvort IMF sé álitlegur kostur fyrir okkur (eins og einhverjir kostir séu í stöðunni - hvað þá álitlegir) tók Steingrímur af skarið í dag og sendi frændum okkar og vinum í Noregi bréf. Það mun hafa verið birt í Aftenposten í dag og nú er að vita hvort þeir senda okkur ekki bara olíupeninga með bréfdúfum strax í fyrramálið.
Langt núna gefur Grímsi nef
Geira og fordæmir hangs og þref.
Af tók hann skarið
og skeytið er farið
- já Norðmönnum sendi hann betlibréf.
En mér segir svo hugur um að jafnvel Norðmenn vilji ekki lána nema að einhver gangi í ábyrgð fyrir okkur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.10.2008 | 22:47
Spá sem mark er á takandi
Það er fátt að frétta af þjóðarskútunni íslensku sem á líkingamáli pólitíkusa þessa dagana er bæði strand og líka að brenna. Björgunarstörf ganga illa og ekki síst þar sem siglingafræðingurinn og/eða slökkviliðsstjórinn fæst ekki til að játa sig sigraðan. Hann á sér þessa dagana formælendur fáa og reyndar eru sjálfstæðismenn svo hræddir að þeir þora ekki að taka sér nafn hans í munn og þar með alls ekki að reka hann. Þetta minnir allt svolítið á Harry Potter og þann sem ekki mátti nefna í þeirri góðu bók.
Ein kona stendur þó með sínum manni. Það er aðdáandi númer 1; Sirrý spákona sem var í viðtali í einhverju blaði um daginn. Hún sér bara rósrauðan bjarma í kúlunni eða spilunum og er sannfærð um að framundan séu góðir tímar fyrir Davíð og þar með vonandi líka fyrir skósvein hans.
Það er della og dæmalaus firr í
að Davíð sé bankanum kyrr í
þó bara hann einn
nú Hólm- styðji steinn
og staffírug spákonan Sirrý
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.10.2008 | 23:12
Ferðasögur
Ferðasögur Íslendinga sem bregða sér úr landi eru eilítið með öðrum blæ þessa dagana en oft áður. Til skamms tíma þótti helst fréttnæmt hvað þeir hefðu gert góð kaup og mikil en eftir síðustu helgi fréttist einna helst af fólki sem lenti í útistöðum við afgreiðslufólk í búðum og bönkum.
Þannig voru konur reknar með látum út úr töskubúð á Strikinu í Kaupmannahöfn þar sem þær voru sárasaklausar að kíkja á söluvarninginn og einhverjir fengu kreditkortin sín klippt í sundur þegar þeir hugðust greiða með þeim í búðum. Óskemmtileg lífsreynsla að ekki sé meira sagt.
Þó hún valdi ekki bráðum bana
mér finnst bölvanleg framkoma Dana:
Konunum prúðum
þeir kasta út úr búðum
en bráðum kemst slíkt víst í vana.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.10.2008 | 23:45
Sorgarfréttir
Ég tók merkilega nærri mér þá frétt í fjölmiðlum dagsins að Japanar hefðu afþakkað heimsókn Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem fyrirhuguð var á allra næstu dögum.
Venjulega er ég ekki mikið að spá í ferðalög þessara spilara en mér finnst þyngra en tárum taki þegar Japanir eins og segir í fréttinni vísuðu til þess "að ástandið á Íslandi væri það slæmt að hljómsveitinni væri ekki treystandi fjárhagslega". Skelfilegt. Þarna rætist það sem menn hafa verið að segja: Orðspor okkar erlendis er verra en slæmt - við erum vanskilafólk sem ekki er gott að hafa mikið saman við að sælda.
Það tók skamman tíma að skapana;
þá skoðun að meistarar glapanna
sig helst skuli heima
halda og gleyma
því heimboði´ er fengu til Japana.
Jæja þeir missa þá bara af Síbelíusi í þetta sinn - en mig minnir að ég hafi heyrt að hljómsveitin hafi verið búin að æfa hann aftur og fram að kröfu Japananna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.10.2008 | 23:55
Kreppurím
Við erum samt ekki af baki dottin og enn sannfærð um að við eigum heima í Öryggisráði hinna sameinuðu þjóða. Verst er að fyrir kreppuþjóð er dýrt að vera í framboði en það var leyst í gær þegar okkar fólk í NY bakaði pönnukökur ofan í gesti og gangandi.
Frá útlenskum afleita dóma
fær Ísland ef ber það á góma.
Við gagnrýni mætum,
geðheilsu bætum
og gefum þeim pönnsur með rjóma.
Kreppan á sér margar birtingarmyndir. Þannig hurfu nokkur tonn af þakjárni af byggingarstað á Hólmsheiði hér eina nóttina. Það fannst síðan næsta dag á bak við hús í Hafnarfirði - og hafði víst ekki verið flutt þangað með Herjólfi!
Að gaman í kreppunni kárni
er kýrskýrt og stela nú járni
óprúttnir bófar
og bíræfnir þjófar
en alls ekki greyið hann Árni.
Bloggar | Breytt 13.10.2008 kl. 00:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.10.2008 | 00:34
Sagan endalausa
Allur lýður er skjálfandi og skekinn
því í skyndingu bankinn var tekinn.
Þrá menn nú heitt
að heyra það eitt
að hinn ruglaði Davíð sé rekinn.
En því miður - hann situr sem fastast og fer hvergi meðan Ingimundur aðstoðarbankastjóri er kominn í veikindaleyfi og hinn aðstoðarbankastjórinn, Eiríkur er sagður slappur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.10.2008 | 23:53
Bjarmalandsför
Skelfileg tíðindi halda áfram að gerast í bankaheimi allra landsmanna og við sem áttum engan þátt í útrásinni fáum nú að vera með. Við eigum nú að sýna skilning og snúa bökum saman. Það væri svo sem í lagi ef bullið í Stjórnarráði og Seðlabanka héldi ekki bara áfram að aukast. Nú er það rússagullið.
Áfram er ástandið bara bull
þó til bjargar nú stari á Rússagull
Davíð og Geir
sem geta ekki meir
og í geitarhús fara því eftir ull.
Auðvitað veit ég að það eru til peningar þarna austurfrá (ekki eyða þeir svo miklu í alþýðu manna) en ég spái því að því fylgi kvaðir sem ekki einu sinn Geir getur gengið að. Og munum: Æ sér gjöf til gjalda.
Þó til Rússanna væflist nú valdamenn
ég er vissum að langfæstir halda menn
að góðmennska rútín-
a gerist hjá Pútín
Nei víst er: Hann gjöf sér til gjalda enn.
Bloggar | Breytt 9.10.2008 kl. 10:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.10.2008 | 22:39
Aðgerðir og aðgerðaleysi
Á ekki að reka Davíð?
Ég bara spyr?
Nú á alþýðan dallinn að ausa
og auðmjúk að hætta að rausa
en víst er það Geir
við gerum ei meir
nema fá sjáum fljúgandi hausa.
Stöku sinnum verða nefninlega rólegheita steingeitur eins og ég blátt áfram blóðþyrstar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Limruleikur
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar